Fara í efni

Eimur - Samstarfsverkefni á sviði orku- umhverfis- og ferðamála á Norðausturlandi

Eimur - Samstarfsverkefni á sviði orku- umhverfis- og ferðamála á Norðausturlandi

 

EIMUR, samstarfsverkefni á sviði orku-, umhverfis- og ferðamála á Norðausturlandi var stofnað með undirritun samstarfsyfirlýsingar bakhjarla verkefnisins á stofnfundi í Hofi á Akureyri, fimmtudaginn 9. júní.

 

Eftirtaldir aðilar undirrituðu samninginn:

—   Arnór Benónýsson, varaformaður Eyþings

—   Erna Björnsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Húsavíkur

—   Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku

—   Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Nánar frá fundinum:

Fjölbreytt dagskrá var á stofnfundinum en samtals voru flutt 9 erindi. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra setti fundinn með stuttu ávarpi. Ráðherra fór m.a. yfir að ekki þyrfti að stilla ferðaþjónustu og orkuiðnaði á móti hvort öðru. Þessar atvinnugreinar geti vel unnið saman eins og árangursrík dæmi sanna.

 

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings kynnti EIM til sögunnar og fór yfir tilurð, markmið og uppbyggingu verkefnisins. Hann benti á þau fjölmörgu tækifæri sem leynast í sjálfbærri nýtingu auðlinda vítt og breitt um Norðurland og fór yfir þau verkefni sem EIMUR mun taka þátt í á næstunni.

Hvað er EIMUR?

Markmið EIMS er að stuðla að aukinni sjálfbærni samfélaga með fjölbreyttari nýtingu orkuauðlinda á Norðausturlandi og samspili samfélags, umhverfis, auðlinda og efnahags. EIM er ætla að skapa jarðveg fyrir nýsköpunar og þróunarverkefni með áherslu á verðmætasköpun í víðum skilningi ásamt því að auka meðvitund almennings og fyrirtækja á málaflokknum.

 

Með virkri starfsemi á þessu sviði er það framtíðarsýn verkefnisins að það muni auka getu svæðisins til að takast á við áskorannir 21. aldarinnar. Að baki verkefninu standa Orkuveita Húsavíkur, Norðurorka, Landsvirkjun og Eyþing, samtök 13 sveitarfélaga á svæðinu ásamt Íslenska ferðaklasanum, Íslenska jarðvarmaklasanum og atvinnuþróunarfélögum á svæðinu.

 

Bakhjarlar verkefnisins munu leggja verkefninu til 100 milljónir í stofnfé. Stofnfénu verður m.a. varið til að ráða starfsmann til verkefnisins. Þegar er hafin vinna við nokkur verkefni á vegum EIMS, m.a. munu tveir starfsmenn vinna við kortlagningu tækifæra á svæðinu í sumar, sérstök málstofa í nýsköpun í orkuiðnaði verða haldin á Húsavík 20. júní nk. Auk þess er hafinn undirbúningur við að afla verkefninu og tengdum verkefnum meira fjármagns í gegnum innlenda og erlenda uppbyggingar- og styrktarsjóði.

 

Sjá nánar hér:

Facebook síða EIMS

Facebook viðburður – stofnfundur EIMS