Fara í efni

Endurnýjun ráðningarsamnings við Reinhard Reynisson bæjarstjóra

  Bæjarstjórn hefur endurnýjað ráðningarsamning við Reinhard Reynisson bæjarstjóra og gildir nýr samningur út núverandi kjörtímabil bæjarstjórnar. Á samningnum, sem  byggir á eldri ráðningarsamningum við bæjarstjóra á Húsavík, eru gerðar ákveðnar breytingar. Laun bæjarstjóra skv. hinum nýja samningi hækka úr kr. 495 þús. í 595 þús. eða um 20% og eru eftir þá breytingu, sem gildir frá 1. jan. 2003, sambærileg því sem gerist hjá sveitarfélögum af þessari stærð. Á ráðningartímanum taka launin breytingum skv. launavísitölu sem gefin er út af Hagstofu Íslands, en í eldri samningi tóku þau breytingum skv. launatöflu Starfsmannafélags Húsavíkurbæjar. Biðlaunaréttur er sex mánuðir, eins og almennt gerist í sambærilegum samningum, í stað þriggja í eldri samningi. Þá fellur niður greiðsla vegna heimasíma bæjarstjóra. Að öðru leyti er nýr samningur efnislega samhljóða þeim ráðningarsamningum sem gerðir hafa verið við bæjarstjóra hér á Húsavík a.m.k. allt frá 1990.

  Bæjarstjórn hefur endurnýjað ráðningarsamning við Reinhard Reynisson bæjarstjóra og gildir nýr samningur út núverandi kjörtímabil bæjarstjórnar. Á samningnum, sem  byggir á eldri ráðningarsamningum við bæjarstjóra á Húsavík, eru gerðar ákveðnar breytingar.

Laun bæjarstjóra skv. hinum nýja samningi hækka úr kr. 495 þús. í 595 þús. eða um 20% og eru eftir þá breytingu, sem gildir frá 1. jan. 2003, sambærileg því sem gerist hjá sveitarfélögum af þessari stærð. Á ráðningartímanum taka launin breytingum skv. launavísitölu sem gefin er út af Hagstofu Íslands, en í eldri samningi tóku þau breytingum skv. launatöflu Starfsmannafélags Húsavíkurbæjar. Biðlaunaréttur er sex mánuðir, eins og almennt gerist í sambærilegum samningum, í stað þriggja í eldri samningi. Þá fellur niður greiðsla vegna heimasíma bæjarstjóra. Að öðru leyti er nýr samningur efnislega samhljóða þeim ráðningarsamningum sem gerðir hafa verið við bæjarstjóra hér á Húsavík a.m.k. allt frá 1990.

Ráðningarsamningur

1. gr.
Bæjarstjórn Húsavíkurbæjar ræður Reinhard Reynisson, kt. 060560-5609, sem bæjarstjóra á Húsavík frá og með 9. júní 2002 og út yfirstandandi kjörtímabil bæjarstjórnar.

2. gr.
Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri bæjarins skv. samþykkt um stjórn Húsavíkurbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

          Bæjarstjóri undirbýr fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar, semur dagskrá og boðar til funda. Hann á sæti á fundum bæjarstjórnarinnar og bæjarráðsins og hefur þar málfrelsi og tillögurétt en eigi atkvæðisrétt nema hann sé kjörinn fulltrúi í bæjarráðið og bæjarstjórnina. Hann hefur og rétt til setu á fundum nefnda bæjarfélagsins með sömu réttindum.

          Bæjarstjóri hefur á hendi framkvæmd ákvarðana bæjarstjórnar og málefna  bæjarfélagsins að svo miklu leyti sem bæjarstjórnin hefur ekki ákveðið annað.

      Bæjarstjóri er prókúruhafi bæjarsjóðs. Hann undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna bæjarfélagsins, lántökur og aðrar skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki bæjarstjórnarinnar þarf til.

          Bæjarstjóri er æðsti yfirmaður starfsliðs bæjarfélagsins.

3. gr.
Föst laun bæjarstjóra skulu vera kr. 595.000,- á mánuði frá og með 1. janúar 2003 og taka breytingum 1. janúar ár hvert skv. launavísitölu sem gefin er út af Hagstofu Íslands. Laun þessi eru fyrir alla vinnu bæjarstjóra, þ.m.t. fundarsetu og önnur nauðsynleg aukastörf utan reglubundins vinnutíma.

4. gr.
Bæjarstjóri skal fá greiddan fastan mánaðarlegan bifreiðastyrk sem nemur 500 km. akstri, vegna afnota af eigin bifreið innan marka Húsavíkurbæjar. Fyrir akstur út fyrir bæjarmörk skal bæjarstjóri fá greitt skv. reikningi. Greiða skal skv. aksturstaxta ferðakostnaðarnefndar ríkisins á hverjum tíma.

5. gr.
Húsavíkurbær greiðir fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði bæjarstjóra svo og rafmagn og hita.

6. gr.
Húsavíkurbær leggur bæjarstjóra til farsíma (GSM) og greiðir af honum allan kostnað. 

7. gr.
Bæjarstjóri skal vera slysatryggður á kostnað Húsavíkurbæjar. Tryggingarupphæðin skal vera kr. 10.728.898,- og fylgja þeim breytingum sem á tryggingunni verða hjá tryggingarfélagi bæjarfélagsins.  

8. gr.
Húsavíkurbær greiðir tilskyldar greiðslur af launum bæjarstjóra í Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga. 

9. gr.
Bæjarstjóri skal njóta almennra réttinda sem kjarasamningur Starfsmannafélags Húsavíkur og Launanefndar sveitarfélaga gerir ráð fyrir.

10. gr.
Bæjarstjóri skal njóta hámarks dagpeninga á ferðalögum í þágu bæjarfélagsins eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma af ferðakostnaðarnefnd ríkisins eða fá dvalarkostnað greiddan skv. reikningi. Auk þess greiðir Húsavíkurbær fargjöld og leigu bílaleigubíla ferðist bæjarstjóri ekki á eigin bifreið.

11. gr.
Að ráðningartíma loknum skal bæjarstjóri, ef ráðningarsamningur verður ekki endurnýjaður, gegna starfi til bráðabirgða, ef nýkjörin bæjarstjórn óskar þess, þó ekki lengur en þrjá mánuði frá lokum yfirstandandi kjörtímabils bæjarstjórnar. Eftir að bæjarstjóri lætur af störfum skal hann eiga rétt á sex mánaða biðlaunum frá Húsavíkurbæ. Með biðlaunum er átt við laun og aðrar fastar greiðslur og hlunnindi skv. gr. 3, 4 og 5 í samningi þessum. 

12. gr.
Samningi þessum geta aðilar breytt með samkomulagi bæjarstjóra og bæjarráðs. Verði ágreiningur um túlkun hans sem aðilar geta ekki jafnað með sér skal vísa honum til úrskurðar Héraðsdóms Norðurlands eystra.

Húsavík, 23. maí 2003