Fara í efni

Engar brennur í Norðurþingi - Við erum öll almannavarnir

Engar áramótabrennur eða þrettándabrennur verða í Norðurþingi að þessu sinni.

Tíu manna fjöldatakmarkanir gera það að verkum að ómögulegt er að halda alla viðburði sem kunna að laða að mannfjölda. Einnig hafði fjölskylduráð tekið afstöðu í málinu á fundi sínum þann 7 desember að aflýsa öllum viðburðum á vegum sveitarfélagsins um jól og áramót.

Sá möguleiki var kannaður að kveikja í brennum en girða svæðin af til að hindra að mannfjöldi kæmist að fyrirhuguðum brennusvæðum. Álit almannavarna og yfirlögregluþjóns í umdæminu var engu að síður afgerandi að ekki væri hægt að tryggja óæskilegar hópamyndanir þó að það brennusvæðin sjálf væru lokuð.
Að því sögðu er það mikilvægt að sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi og fari eftir þeim sóttvarnarreglum sem sett eru af yfirvöldum. „ VIÐ ERUM ÖLL ALMANNAVARNIR“

 

Flugeldasýningar munu þó fara fram enda ekki þörf á að hópast saman til að horfa á flugeldasýningar.
Kiwanisklúbburinn Skjálfandi mun standa fyrir flugeldasýningum á Húsavík:
Gamlársdagur kl 20.00
Þrettándinn kl. 18.00

Flugeldum verður skotið frá hafnarsvæðinu sem er vel sýnilegt víðast hvar úr bænum. Fólk er beðið um að hópast ekki saman og virða fjarlæðgarmörk og fjöldatakmarkanir.

Á Kópaskeri og Raufarhöfn verða björgunarsveitir ekki með eiginlegar sýningar en meðlimir sveitanna munu skjóta því sem ekki selst af lagernum á gamlársdag.