SÍBS Líf og heilsa á Norðurlandi Eystra
SÍBS, Hjartaheill, Samtök sykursjúkra og Samtök lungnasjúklinga bjóða íbúum Norðurlands Eystra og Vopnafjarðar ókeypis heilsufarsmælingu dagana 27. – 30. ágúst. Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleiri gildi, auk þess sem fólki gefst kostur á að taka þátt í könnun um heilbriði og lifnaðarhætti og sjá útkomu sína í nafnlausum samanburði við aðra. Mælingarnar eru hluti af hringferðum SÍBS Líf og heilsa um landið þar sem þúsundir hafa þegið ókeypis mælingu.
Mælingar fara fram á eftirtöldum stöðum:
- Vopnafjörður 27. ágúst (mán) kl. 15-17 í Félagsheimilinu Miklagarði
- Þórshöfn 28. ágúst (þrið) kl. 9-11 í heilsugæslunni, Miðholt 2
- Raufarhöfn 28. ágúst (þrið) kl. 14-16 í Dvalarheimilinu Vík, Aðalbraut 33
- Kópasker 28. ágúst (þrið) kl. 14-16 í Stórumörk, Akurgerði 2
- Mývatn 29. ágúst (mið) kl. 9-11 í heilsugæslunni, Hlíðarvegur 8
- Laugar 29. ágúst (mið) kl. 10-11 í heilsugæslunni íþróttahúsinu
- Húsavík 30. ágúst (fim) kl. 9-16 í Miðhvammi, Vallholtsvegur 17
Skorað er á alla þá sem ekki eru undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og ekki þekkja gildin sín að nota tækifærið og fá mælingu. Því yngra sem fólk er þegar það byrjar að fylgjast með blóðþrýstingi, blóðfitu og blóðsykri, því líklegra er að takist að koma í veg fyrir að það þrói með sér alvarlega og langvinna sjúkdóma.
Snemmgreining skilar sér hundraðþúsundfalt
Ef hægt er að varna því að einstaklingur látist 20 árum fyrir aldur fram eða verji jafn löngum tíma við örorku af völdum lífsstílstengdra sjúkdóma, þá sparar það samfélaginu 150 milljónir króna mælt í landsframleiðslu á mann. Þar sem grunnkostnaður við hverja mælingu er um 1500 krónur skilar ein slík snemmgreining sér hundraðþúsundfalt í krónum og aurum – til að tala nú ekki um alla þá mannlegu þjáningu sem hægt er að afstýra. Í hvert skipti sem mælt sé finnist einstaklingar sem í kjölfarið leiti á heilsugæsluna til að fá staðfest hvort þeir þurfi á meðferð að halda við m.a. háþrýstingi, of háu kólesteróli eða skertu sykurþoli. Ódýr lyfjagjöf ásamt ráðgjöf um bættan lífsstíl geti þar gert gæfumuninn.
Opinber stuðningur og samstarf lykilatriði
Guðmundur framkvæmdastjóri SÍBS segir afar ánægjulegt hversu gott samstarf hafi tekist við heilbriðigsstofnanir um allt land um framkvæmd mælinganna, því það sé lykilatriði að koma þeim einstaklingum áfram inn í heilbrigðiskerfið sem skimast með há gildi. „Heildstætt samsarf við heilbrigðisstofnanir og bæjarfélög á hverjum stað skiptir höfuðmáli, og það er sérlega ánægjulegt þegar tekst að tengja mælingarnar við verkefnið Heilsueflandi samfélag sem Embætti landlæknis vinnur að með sveitarfélögum.“
„Stuðningur hins opinbera við heilsufarsmælingar SÍBS Líf og heilsa hlýtur að vera ein besta fjárfesting í annars stigs forvörnum sem miða að því að stöðva framgang sjúkdóms. Öll önnur inngrip sem koma þar á eftir ef einstaklingurinn þróar með sér sjúkdóm eru í senn dýrari fyrir samfélagið og afdrifaríkari fyrir einstaklinginn,“ segir Guðmundur.
Máttarstólpar SÍBS styrkja verkefnið
Að sögn Guðmundar hefur það skipt sköpum að SÍBS Líf og heilsa hefur notið stuðnings Máttarstólpa SÍBS, sem séu einstaklingar og fyrirtæki sem styrkja fræðslu- og forvarnastarf samtakanna. Hægt sé að gerast Máttarstólpi með því að hringja í síma 560 4800 á skrifstofutíma eða senda tölvupóst á mattarstolpar@sibs.is.