Ferðastyrkur til ungmenna í Norðurþingi.
Sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, frú Madeleine Ströje Wilkens afhenti í gær í annað sinn ferðastyrk til handa ungmennum í Norðurþingi. Ferðastyrkurinn er ætlaður til að standa straum af ferðakostnaði ungmenna úr Norðurþingi til Svíþjóðar, styrkupphæðin miðast við að eitt eða tvö ungmenni geti ferðast saman. Fyrir fyrsta ferðastyrkinn sem afhentur var í desember á síðasta ári ferðuðust Ólafía Helga Jónasdóttir og Sara Stefánsdóttir til vinabæjar Húsavíkur, Karlskoga og dvöldu þar í góðu yfirlæti í boði Karlskoga Kommun nokkra daga um mánaðarmótin maí - júní á þessu ári.
Stúlkurnar voru verðugir fulltrúar sveitarfélagsins og gátu sér góðan orðstír. Þær skiluðu skýrslu til sænska sendiráðsins á Íslandi og sveitarfélaganna tveggja. Skýrslan þeirra er skemmtileg og gagnleg og svo vel tókst til með ferðina að áhugi er á að styrkja ungmennaskipti á milli sveitarfélaganna árlega. Til staðfestingar á þessum áhuga afhenti frú Madeleine Ströje Wilkens Norðurþingi nýjan styrk að loknum fyrirlestri þeirra Ólafíu og Söru í Safnahúsinu í gær. Norðurþing færir sendiherra Svía á Íslandi bestu þakkir fyrir veglega gjöf og hlýhug í garð sveitarfélagsins og ungmenna þess.