Fjárhagsáætlun 2024-2027 samþykkt í sveitarstjórn
Þann 30. nóvember fór fram síðari umræða í sveitarstjórn Norðurþings um fjárhagsáætlun 2024 og næstu þriggja ára þar á eftir.
Í áætluninni er lögð áhersla á aðhald í rekstri, eflingu grunnþjónustu og forgangsröðun í þágu yngstu íbúa sveitarfélagsins. Áætlunin stenst lagaleg viðmið um afkomu og fjárhagsstöðu samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Skuldahlutfallið samkvæmt ársreikningi 2022 var 122% og samkvæmt framlagðri áætlun fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið verði 136,4% sem skýrist af fyrirhuguðum stórum framkvæmdum á árinu á borð við hjúkrunarheimili og frístundahúsnæði. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 746 m.kr. í samstæðunni sem gerir um 13,9% samanborið við 12,3% í áætlun 2023. Þá er gert er ráð fyrir að laun og launatengd gjöld í hlutfalli af tekjum nemi 52,9% í samstæðu og 58,97% í A-hluta sem er lækkun um 1,2% frá áætlun 2023.
Auk stórra fjárfestinga í hjúkrunarheimili og frístundahúsnæði verður farið í viðamiklar fjárfestingar í gatnagerð vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis sem mun líka skila sér í betri þjónustu við fyrirtæki sem kjósa að hafa sína starfsemi í sveitarfélaginu. Þær fjárfestingar eru aðkallandi í samfélagi sem er stækkandi og býr yfir gnægð tækifæra.
Fjárhagsáætlunin var unnin í góðu samstarfi allra sveitarstjórnarfulltrúa var hún samþykkt samhljóða í sveitarstjórn. Starfsfólki Norðurþings voru færðar þakkir fyrir góða vinnu við gerð fjárhagsáætlunar.
Hægt er að sjá afgreiðslur varðandi álagningar gjalda og gjaldskráa hér í fundargerð sveitarstjórnar.
Einnig er að finna í fundargerðinni greinargerð vegna fjárhagsáætlunar og fjárhagsáætlun 2024-2027 í heild sinni.