Fjárhagsáætlun Norðurþings samþykkt - jákvæð rekstarniðurstaða áætluð næstu 4 árin
Fjárhagsáætlun Norðurþings 2025 og 2026-2028 var samþykkt í síðari umræðu á sveitarstjórnarfundi 5. desember 2024. Fyrri umræða fór fram 31. október og var unnið í áætluninni á milli umræðna í öllum fagráðum sveitarfélagsins. Forsendur fjárhagsáætlunar eru byggðar á 6 mánaða milliuppgjöri, þjóðhagsspá Hagstofu Íslands og áætlunum greiningardeildar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar ársins 2025
Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu á A-hluta bæjarsjóðs að fjárhæð 202 m.kr. og jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 1.373 m.kr. í samstæðu A og B hluta.
Heildartekjur
Heildartekjur samstæðu eru áætlaðar 6.787 m.kr. á árinu 2025.
Álagningarhlutfall útsvars er óbreytt,14,97%. Áætlaðar útsvarstekjur eru 2.451 m.kr og hækka um rúmlega 4% miðað við útgönguspá ársins 2024.
Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 560 m.kr og hækka um 6% milli ára. Eru þá meðtaldar nýjar eignir sem bæst hafa við á árinu 2024.
Almenn gjaldskrárhækkun er 5% á árinu 2025 sem er minni en hækkun síðustu ára. Gjaldskrárhækkanir leikskóla og frístundar sem og viðkvæmra hópa verða 2,5% sem er í samræmi við kjarasamninga sem gerðir voru á vormánuðum.
Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Norðurþings eru áætlaðar um 1.135 m.kr á árinu 2025. Stuðst er við áætlun Jöfnunarsjóðsins.
Aðrar tekjur eru áætlaðar 2.590 m.kr í samstæðu þar af 1.508 m.kr í A- hluta.
Rekstrargjöld
Heildargjöld samstæðu Norðurþings að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða eru áætluð 6.545 m.kr.
Launakostnaður samkvæmt áætlun er samtals 3.629. m.kr árið 2025 í samstæðu og 3.468 m.kr í A-hluta. Í hlutfalli af tekjum eru laun 53,5% í samstæðu og 60,6% í A-hluta. Stöðugildi sveitarfélagsins og stofnana eru alls um 300.
Annar rekstrarkostnaður samstæðureiknings er áætlaður 1.948 m.kr. sem er 3,3% hækkun milli ára, annar rekstrarkostnaður A-hluta er áætlaður 1.544 m.kr.
Fjármagnskostnaður samstæðureiknings er áætlaður 315 m.kr. á árinu 2025 og 105 m.kr í A- hluta og lækkar í hlutfalli við vísitölu og lækkandi vexti.
Lykiltölur
Gert er ráð fyrir að rekstur A-hluta verði jákvæður um 156 m.kr og að rekstrarniðurstaða samstæðu verði jákvæð um 221 m.kr á árinu 2025. Þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu bæði A-hluta og samstæðu öll árin.
Veltufé frá rekstri er áætlað 666 m.kr hjá A-hluta og 986 m.kr í samstæðureikningi árið 2025.
Handbært fé í árslok 2025 er áætlað 1.223 m.kr hjá A-hluta og 1.822 m.kr í samstæðureikningi. Skuldir og skuldbindingar samstæðu nema samtals 8.357 m.kr., þar af langtímaskuldir við lánastofnanir 4.332 m.kr og 2.736 m.kr vegna lífeyrirsskuldbindinga.
Veltufjárhlutfall er áætlað 2,19 á árinu 2025, veltufé frá rekstri samstæðu er 14,5%
Fjárhagsstaða Norðurþings er stöðug og viðunandi, staðan breytist frekar til batnaðar á næstu árum miðað við áætlanir. Sveitarfélagið hefur ekki tekið ný lán hvorki á þessu ári né næstu þremur árum þar á undan, skuldir eru töluverðar en vel undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga. Áætlun samstæðu gerir ráð fyrir að lántaka verði 300 m.kr á árinu 2025. Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegðarhlutfall og veltufjárhlutfall sé vel yfir þeim mörkum sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga setur.
Framkvæmdaáætlun
Framkvæmdir samstæðu eru áætlaðar 1.001 m.kr árið 2025 en voru áætlaðar 923 m.kr árið 2024. Töluvert af framkvæmdum er að hliðrast á milli ára og koma þær framkvæmdir inn á framkvæmdaáætlun ársins 2025. Þar má m.a. nefna framkvæmdir og aðstöðu fyrir frístund og félagsmiðstöð og framkvæmdir vegna hafnarmála sem hafa hliðrast undanfarin ár.
Stærsta framkvæmd næstu þriggja ára er bygging nýs húsnæðis fyrir frístund og félagsmiðstöð austan Borgarhólsskóla og verður verkið boðið út í lok janúar nk. Ný sundlaug við Lund í Öxarfirði er að þriggja ára áætlun en stefnt er á að laugin verði hönnuð á næsta ári og framkvæmdir verði á árunum 2026 og 2027. Endurnýjun gervigrass ásamt áhorfendastúku verður sett á PCC- völl á vormánuðum 2025. Einnig verður byrjað að vinna að endurnýjun á gólfi og stúku í íþróttahöll á Húsavík á næstu tveimur árum. Áfram verður haldið með framkvæmdir í Reitnum sem mun stuðla að uppbyggingu íbúða og auka tekjur sveitarfélagsins. Framkvæmdir á iðnaðarsvæðinu á Höfða og Röndinni á Kópaskeri styðja við frekari atvinnustarfssemi í sveitarfélaginu. Ýmis smærri verkefni eru á framkvæmdaáætlun og áhersla er á að ljúka þeim verkum sem hafin eru. Unnið hefur verið að skipulagi um þéttingu byggðar í suðurbæ Húsavíkur sem fjölgar hagstæðum íbúðarlóðum verulega á næstu árum. Unnið verður áfram við gerð aðalskipulags Norðurþings og því lokið á næsta ári. Einnig gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir að á árinu verði haldið áfram með framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili í Auðbrekku. Það verkefni er í ferli hjá ríkinu sem mun annast þá byggingu að fullu og mun tilkoma þess efla og bæta grunnþjónustu aldraðra til mikilla muna.
Lokaorð
Það er mikil vinna og langt ferli að koma saman fjárhagsáætlun. Vinnan gekk mjög vel í ár og tímasetningar sveitarstjórnarfunda voru þannig að rúmur tími gafst til vinnu á milli fyrri og síðari umræðu. Fjárhagsstaða Norðurþings er stöðug og viðunandi, staðan breytist frekar til batnaðar á næstu árum miðað við fjárhagsáætlun 2025-2028.
Ég vil þakka kjörnum fulltrúum í ráðum sveitarfélagsins og sveitarstjórn fyrir góð störf við áætlanagerðina. Einnig þakka ég stjórnendum og starfsfólki fyrir þeirra mikilvæga framlag í áætlanagerðinni og við aðhald í rekstri sveitarfélagsins. Í samvinnu allra þessara aðila er hér lögð fram góð fjárhagsáætlun til næsta árs og þriggja ára þar á eftir.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri