FJÖLSKYLDAN Á FJALLIÐ
Á þessum völdu fjöllum eru staðsettir gestabókarkassar og fólk getur skráð nöfn sín í gestabók. Nöfn heppinna göngugarpa eru dregin út og fá þeir glaðning frá UMFÍ. Einnig eru veittar viðurkenningar fyrir að ganga á flest fjöll.
Héraðssamband Þingeyinga tekur þátt í þessu verkefni 5. árið í röð og alltaf eru valin tvö fjöll í okkar héraði. Í boði er að fara með í skipulagða gestabókargöngur á fjöllin, en fólk getur að sjálfsögðu farið hvenær sem er og jafnvel oftar en einu sinni.
Snartarstaðanúpur á Melrakkasléttu (2 ½ klst.)
Farið er út fyrir Skörðin að slóðanum upp á Núpinn, um 7 km norðan Kópaskers. Þar er lagt af stað og gengið eftir slóðanum. Þegar upp á fjallið er komið er upplagt að ganga vestur á Núpinn til að fá enn betra útsýni.
Gestabókarganga á vegum Ferðafélagsins Norðurslóðar 6. júní - mæting kl. 13:00.
Húsavíkurfjall (2 ½ klst.)
Best er að hafa göngukort, sem fæst í upplýsingarmiðstöðinni í Hvalasafninu á Húsavík, því leiðin er ekki öll vel merkt með staurum og skiltum. Hefjið gönguna frá bílaplani við íþróttahúsið á Húsavík og gangið upp götuna Skálabrekku í norðurátt, en við enda götunnar byrjar hin eiginlega gönguleið, merkt með staur sem sýnir gönguleið að Húsavíkurfjalli.
Gestabókarganga á vegum HSÞ 13. júní - mæting kl. 13:00 á bílaplanið við íþróttahúsið.