Forsetakosningar 27. júní 2020 - Sóttvarnir á kjörstöðum í Norðurþingi.
Í ljósi alvarleika Covid19 veirufaraldurs, sem geysað hefur á Íslandi og heimsbyggðinni s. l. mánuði hefur Yfirkjörstjórn Norðurþings ákveðið að gefa út eftirfarandi leiðbeiningar um sóttvarnir og tilheyrandi atriði sem gilda á kjörstöðum í Norðurþingi laugardaginn 27. júní 2020.
Kjósendur hvattir til að sýna ítrustu varkárni, virða reglur og leiðbeiningar sem sóttvarna- og landlæknir hafa sett og kynnt á s. l. vikum (sjá landlaeknir.is og covid.is).
Réttur til að taka þátt í kosningum er ein að mikilvægari mannréttindum okkar. Í því fellst að aðgengi þarf að vera gott og kjósandi þarf að upplifa og treysta því að umhverfi sé eins öruggt og kostur er. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að huga að aðgengi þeirra sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir veirusmiti (einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma og þá sem eldri eru - áhættuhópar) og þeim sem á annan hátt eru viðkvæmir við þessar aðstæður.
Verkefni Yfirkjörstjórnar Norðurþings, kjörstjórna og starfsmanna í kosningunum er að gera allt sem hægt að til að þessir hópar og aðrir kjósendur upplifi sig örugga á kjörstað geti nýtt og notið þeirra réttinda að taka þátt í kosningum.
Á kjörstöðum Norðurþings verða eftirfarandi ráðstafanir gerðar í því skyni að tryggja fullar sóttvarnir og gera kosninguna aðgengilega fyrir alla.
Fyrir kjósendur
Það er á ábyrgð hvers og eins að fylgja tilmælum sóttvarnayfirvalda og Yfirkjörstjórnar um umgengni, hegðun og fjarlægðartakmarkanir á kjörstað.
Tryggt verður að aðstæður séu með þeim hætti að það sé öllum kjósendum mögulegt. Nægt framboð af handspritti er til afnota fyrir kjósendur og hanskar fyrir þá sem vilja.
Umferð kjósenda verður inn á kjörstaði um skilgreinda innganga fyrir kjördeildir, þá sömu og undanfarnar kosningar. Umferð og biðröðum verður stýrt af húsvörðum og kjörstjórnum og eru kjósendur hvattir til að fylgja í öllu leiðbeiningum og fyrirmælum þeirra.
Gæta skal að plássi fyrir raðir kjósenda við inngang kjördeilda. Gætt verður að fjarlægðartamörkunum fyrir kjörklefa og milli kjósenda og kjörstjórna. Þeim starfsmönnum í kjördeild sem eiga í beinum samskiptum við kjósendur, s.s. við afhendingu kjörseðla eða taka við skilríkjum, verður gert að klæðast hönskum á meðan þau sinna þeim störfum. Eftir hverja tíu kjósendur verða helstu snertifletir í kjördeildum og kjörklefum sótthreinsaðir. Kassi með blýöntum verður í hverjum kjörklefa. Hver blýantur verður aðeins notaður einu sinni (kjósandi skilar honum í þar til gert ílát hjá undirkjörstjórn. Þeir verða sprittaðir áður en þeir fara aftur í notkun.
Fyrir starfsfólk á kjörstöðum
Sömu tilmæli gilda um kjörstjórnir og starfsfólk kosninganna. Þó verður ekki unnt að tryggja að starfsfólk geti virt viðmið um 2 metra milli einstaklinga í kjörstjórnum og starfsmanna. Verður því mælst til þess að fólk í áhættuhópum taki ekki sæti í kjörstjórn (ákvörðun hvers og eins einstaklings í kjörstjórn og starfsmanns). Í þessu sambandi er vísað til reglna og leiðbeininga frá Sóttvarnar- og landlækni. Gerðar verða þær ráðstafanir sem mögulegar eru, t.d. varðandi takmörkun á samgangi.
Starfsfólk ber ábyrgð á að mæta ekki til vinnu við kosningar nema það sé frískt. Það er ábyrgð hvers og eins starfsmanns að fylgja tilmælum Yfirkjörstjórnar um umgengni, hegðun og fjarlægðartakmarkanir, þar sem slíkt er mögulegt. Starfsmönnum verður skylt að nota spritt reglulega og hanska þegar það á við.
Almennt skal starfsfólk ekki fara út fyrir sitt vinnusvæði nema til að komast í mötuneyti og önnur rými ætluð þeim á kjörstað. Minnt er á góða umgengi, handþvott, spritt og aðrar almennar aðgerðir í sóttvörnum. Almennt verður ekki annar neysluvarningur leyfður en sá sem boðið er upp á í mötuneyti.
Kjósendum er óheimil aðgangur að mötuneyti eða vinnurými starfsmanna. Takmarka skal snertingar og nálægð eins og við verður komið.