Fara í efni

Frábær árangur Öxarfjarðarskóla í Samrómi

Samrómur er spennandi verkefni þar sem unnið er að því að safna upptökum
af lestri sem notaðar verða til að kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku.

Verkefnið er á vegum Almannaróms, sem hefur það að markmiði að tryggja máltæknilausnir fyrir íslensku,
Deloiette, Háskóla Reykjavíkur og Nýsköpunarsjóð námsmanna.
Með þessu sameiginlega átaki verður hægt að skapa gagnasafn íslenskunnar sem mun standa með tækniþróun í framtíðinni.

Lestrarkeppni grunnskóla stóð yfir frá 20. - 26. janúar. Markmið keppninnar var að
hvetja ungt fólk til þáttöku í verkefninu Samrómi. Öxarfjarðarskóli tók þátt með framúrskarandi árangri!

Hrund Ásgeirsdóttir, skólastjóri í Öxarfjarðarskóla, sagði að nemendur hafi sýnt keppninni mikinn áhuga enda var til mikils að vinna, í verðlaun var þrívíddar prentari fyrir sigurhæsta liðið. Í liði Öxarfjarðarskóla voru 285 manns sem samanstóð af nemendum, starfsfólki skólans, fjölskyldum og vinum. Liðið las samtals 147.189 setningar sem gera 5661 setningu á nemanda og hafnaði í 2. sæti í sínum flokki á eftir Höfðaskóla sem tók  fyrsta sætið með 153.288 setningar eða 2189 setningar á nemanda. Öxarfjarðarskóli hafnaði í 4. sæti á landsvísu þegar allir flokkar eru taldir með.

Hrund var himinsæl með árangur skólans:
"Þetta sýnir okkur hvað samhugurinn getur gert mikið; baráttuandi, samvinna og liðsheild. Það er umfram allt hugarfarið sem skiptir máli og liðsandinn. Að vilja ná langt og gera vel – alveg sama hvað við tökum að okkur. Það sem ekki er síður mikilvægt, er hversu vel samfélagið allt tók þátt í þessu með okkur, foreldrar, systkini, starfsfólk, ömmur, afar, frændfólk og vinir og velunnarar. Verkefni sem þetta kennir okkur að standa saman og sýnir hvernig best vinna það; með gleði, opnum huga, baráttu og umfram allt eins og eitt lið. Það þjappar okkur enn frekar saman."

Fyrir framúrskarandi árangur fær Öxarfjarðarskóli aukaverðlaun og fer verðlaunaafhendingin fram á Bessastöðum þann 8.febrúar næstkomandi.

Hrund Ásgeirsdóttir tók saman smá pistil um gengi Öxarfjarðarskóla og hér má lesa hann í heild sinni.

Norðurþing óskar nemendum og öllum þeim sem veittu þeim lið til hamingju með árangurinn!