Fara í efni

Rannsóknarborunum flýtt á Norðausturlandi

Verksamningur undirritaður milli Þeistareykja og JarðboranaStjórnir Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. hafa samþykkt að auka verulega við rannsóknir vegna undirbúnings jarðgufuvirkjana á Norðausturlandi í sumar.

Verksamningur undirritaður milli Þeistareykja og Jarðborana
Stjórnir Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. hafa samþykkt að auka verulega við rannsóknir vegna undirbúnings jarðgufuvirkjana á Norðausturlandi í sumar.

Markmið félaganna er að flýta öflun upplýsinga um afkastagetu jarðhitasvæðanna í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum til að mæta aukinni eftirspurn væntanlegra orkukaupenda á svæðinu. Þeistareykir ehf. er í eigu Landsvirkjunar, Orkuveitu Húsavíkur og Þingeyjarsveitar. Framkvæmd rannsóknarborana er háð tilskyldum leyfisveitingum.
Samanlagður kostnaður Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. vegna aukinna rannsókna í sumar er um 500 milljónir króna. Þegar hafði verið tilkynnt um fjárfestingar fyrir 1,5 milljarð króna á Norðausturlandi fyrr á þessu ári.
„Þetta eru fyrstu rannsóknarboranir á Þeistareykjum í þrjú ár og við bindum miklar vonir við að þær muni styrkja enn frekar þann þekkingargrunn sem byggður hefur verið upp á svæðinu á umliðnum árum,“ segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.
 „Þetta eru jákvæð tíðindi og stórt skref í þá átt að byggja upp orkufrekan iðnað í Þingeyjarsýslum,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings.

 

Auknar rannsóknir nauðsynlegar til að staðfesta orkugetu

Á síðustu tíu árum hafa Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. varið um 10 milljörðum króna í undirbúning og rannsóknir á jarðhitasvæðunum Þeistareykjum, Bjarnarflagi og Kröflu á Norðausturlandi. Áætlun fyrir árið 2011 hafði gert ráð fyrir borun einnar rannsóknarholu sumarið 2011 á Þeistareykjum, en nú hefur verið ákveðið að fjölga þeim í tvær. Með því er lögð aukin áhersla á öflun upplýsinga um afkastagetu Þeistareykjasvæðis og möguleika á að hraða uppbyggingu jarðgufuvirkjana á svæðinu.
Búið er að afla gufu fyrir 45 MWe bæði í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Núverandi rannsóknir benda til að Þeistareykjasvæðið standi undir 240 MWe orkuvinnslu (miðgildi). Tilgangur tilraunaborana í sumar er að staðfesta að austurhluti svæðisins standi að lágmarki undir 90-100 MWe orkuvinnslu. Fyrir árslok 2011 hyggst Landsvirkjun sækja um virkjunarleyfi til Orkustofnunar fyrir 45 MWe virkjun í Bjarnarflagi og Þeistareykir ehf. fyrir 90-100 MWe virkjun á Þeistareykjum.

 

Samningar gerðir vegna borana og vegagerðar

Til samræmis við þessa ákvörðun hafa Þeistareykir ehf. undirritað verksamning við Jarðboranir hf. um boranir á tveimur 2.500 metra djúpum rannsóknarholum  á Þeistareykjum og verður borinn Óðinn notaður til verksins. Áætlað er að verkið hefjist um mánaðamótin júní/júlí og ljúki á haustmánuðum.
Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana: „Við höfum átt gott samstarf við báða þessa viðskiptavini og vonumst til að sem bestur árangur náist með þessum rannsóknarborunum sem miða að enn frekari nýtingu umhverfisvænnar orku og aukinni verðmætasköpun.”
Þá hafa tilboð vegna vegagerðar við Þeistareykjaveg nyrðri verið opnuð en gert er ráð fyrir að verkið hefjist í byrjun júlí og verði lokið í byrjun október. Verkið felst í vegalagningu á 11,2 km frá Höfuðreiðarmúla að Þeistareykjum. Með nýjum vegi mun framkvæmdatími á Þeistareykjum lengjast um nokkra mánuði á ári en vetrarfærð hefur verið takmarkandi þáttur varðandi framkvæmdir.


Skipulags- og leyfismál

Lokið er mati á umhverfisáhrifum fyrir allt að 200 MWe virkjun á Þeistareykjum. Aðalskipulag Þingeyjarsveitar bíður nú afgreiðslu Skipulagsstofnunar og síðan staðfestingar umhverfisráðherra. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur nú til umfjöllunnar og afgreiðslu tilskilin leyfi fyrir ofangreindum framkvæmdum.

Reykjavík, 31. maí 2011
Nánari upplýsingar veitir:
Ragna Sara Jónsdóttir, yfirmaður samskiptasviðs
s. 515 9000    sara@lv.is