Fréttatilkynning frá Sveitarfélaginu Skagafirði og Sveitarfélaginu Norðurþingi
Sveitarstjórnir Skagafjarðar og Norðurþings hafa sameiginlega óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra og fjárlaganefnd Alþings til að ræða niðurstöður lögfræðiálits sem Dögg Pálsdóttir hrl. hefur unnið fyrir sveitarstjórnirnar. Álitið fjallar um hvort boðaður niðurskurður í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 á fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga standist stjórnarskrá, lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga, önnur lagaákvæði og skuldbindingar Íslands skv. alþjóðlegum mannréttindaákvæðum, vegna víðtækra áhrifa niðurskurðarins á rétt manna á starfssvæðum stofnananna til heilsu.
Sveitarfélagið Skagafjörður óskaði 4. október sl. skriflega eftir fundi með ráðherranum til að ræða boðaðan niðurskurð á fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki, en þeirri beiðni hefur ekki verið svarað. Samskonar beiðni frá Sveitarfélaginu Norðurþingi liggur jafnframt fyrir í heilbrigðisráðuneytinu.
Meðal þess sem fram kemur í álitinu er að vandséð sé hvernig breytingar þær sem leiða af fyrirhuguðum niðurskurði á þjónustu nokkurra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni rúmist innan laga um heilbrigðisþjónustu. Þá sýnist niðurskurðurinn brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem hann bitnar með mismunandi hætti á landsmönnum, eftir því hvar þeir búa og hefur ófyrirséðar afleiðingar fyrir umfang og gæði þeirrar grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins sem veitt verður á landsbyggðinni. Þá virðast niðurskurðartillögurnar í beinni andstöðu við önnur lagaákvæði sem tryggja íbúum rétt til heilsu sem og ákvæði alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem staðfestir hafa verið af Íslands hálfu. Smellið hér til að sjá álitið í heild sinni.
Forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki hafa þegar sent heilbrigðisráðherra tillögur um útfærslur á 5% niðurskurði á fjárveitingum til stofnunarinnar fyrir árið 2011. Er þar um að ræða ítrekun á fyrri tillögum stofnunarinnar. Forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga hafa ennfremur gert slíkt hið sama.
Nánari upplýsingar veita Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri í Skagafirði í síma 894 8961 og Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri í Norðurþingi, sími 896 4701.