Fara í efni

Fréttatilkynning - Stofnfundur Fálkaseturs Íslands

Stofnfundur Fálkaseturs Íslands verður haldinn í Gljúfrastofu þriðjudaginn 1. mars kl. 20:00. Á fundinum mun Ólafur Nielsen flytja erindi um Íslenska fálkann. Stofnfundur Fálkaseturs Íslands verður haldinn í Gljúfrastofu þriðjudaginn 1. mars kl. 20:00. Á fundinum mun Ólafur Nielsen flytja erindi um Íslenska fálkann.

Einnig verður hugmyndin að félaginu kynnt, en skv. drögum að samþykktum er tilgangur félagsins að vera samstarfsvettvangur einstaklinga, stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja á Norðausturlandi um uppbyggingu og rekstur Fálkaseturs í Gljúfrastofu sem miðlar vísindalegri þekkingu á fálka- og rjúpnastofninum til almennings, með það fyrir augum að þekking og virðing á fálkanum, rjúpunni og umhverfi þeirra aukist. Fálkasetrið stuðli að aukinni fuglaskoðun,  skapi  atvinnu og hafi jákvæð efnahagsleg áhrif á samfélagið.

Veturinn 2009-2010 kom sú hugmynd fram að koma á fót Fálkasetri í Ásbyrgi sem tileinkað yrði minningu Theodórs Gunnlaugssonar, náttúruskoðara og sjálfmenntaðs náttúrufræðings sem ólst upp á Hafurstöðum í Öxarfirði austan Jökulsár á Fjöllum.  Á síðasta ári var hugmyndin reifuð frekar, m.a. á vettvangi Fuglastígs á Norðausturlandi og myndaður var starfshópur til að vinna frekar að þróun hugmyndarinnar og undirbúningi að stofnun félags um Fálkasetrið.

Grunnhugmyndin að verkefninu byggir á því að nýta einstakar aðstæður í Ásbyrgi og Jökulsárgljúfrum til að fræða almenning um íslenska fálkann, lifnaðarhætti og tengsl hans við aðrar tegundir og þá sérstaklega rjúpuna.

Fjöldi gesta heimsækir Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi ár hvert þar sem náttúra svæðisins er helsta ástæða heimsóknar þeirra. Í Ásbyrgi er Gljúfrastofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs og þar eru aðstæður til fræðslu um svæðið góðar. Jökulsárgljúfur eru kjörlendi fálkans og fuglaskoðarar sækjast eftir því að fá að sjá þennan tígurlega fugl.

Fálkasetrið verður hluti af Fuglastíg á Norðausturlandi, þar sem áhugaverðir fuglaskoðunarstaðir, fræðsla og leiðbeiningar eru tengdir saman í eina ferðaleið, frá Mývatni og út á Langanes. Ferðaleiðin verður aðgengileg ferðamönnum, innlendum sem erlendum og er markmið hennar að styðja við fuglatengda ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingu á svæðinu. 

Fálkasetrið verður tileinkað minningu Theodórs Gunnlaugssonar, náttúruskoðara og sjálfmenntaðs náttúrufræðings sem fæddist og ólst upp á Hafurstöðum í Öxarfirði austan Jökulsár á Fjöllum. Enginn þekkti Jökulsárgljúfur eins vel og Theodór og eftir hann liggur mikið af rituðu efni um náttúru svæðisins, þ.á.m. fálkann og rjúpuna.

Vatnajökulsþjóðgarður, Náttúrustofa Norðausturlands, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Fuglastígur á Norðausturlandi  hafa komið að undirbúningi verkefnisins.  Auk þess hefur verið haft samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi stofnun Fálkasetursins mun stofnunin veita verkefninu faglega ráðgjöf og efni.

Allir áhugasamir eru hvattir til þess að mæta á stofnfundinn.

 

Undirbúningsnefnd