Fara í efni

Frumvarp til breytinga á lögum um náttúruvernd

Bæjarráð Norðurþings hefur skoðað frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Ráðið telur tillögurnar öfgafullar og óásættanlegar eins og þær eru kynntar og því tilefni til verulegra athugasemda við frumvarpið af hálfu sveitarfélagsins Norðurþings.

Bæjarráð Norðurþings hefur skoðað frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Ráðið telur tillögurnar öfgafullar og óásættanlegar eins og þær eru kynntar og því tilefni til verulegra athugasemda við frumvarpið af hálfu sveitarfélagsins Norðurþings.

1.    2. gr. frumvarpsins um akstur utan vega þyrfti að gjörbreyta til að ná þeim árangri sem til er ætlast.  Greinin virðist ganga út frá að banna og gera refsiverðan allan akstur utan þeirra vega sem skilgreindir verða í sérstakri reglugerð umhverfisráðherra.  Langstærstur hluti „utanvegaaksturs“ á sér stað á fullkomlega eðlilegum og hagnýtum forsendum og án þess að valda umtalsverðu tjóni á náttúrunni.  Slíkur akstur getur t.d. falist í akstri ýmissra landbúnaðarslóða sem seint verða skilgreindir sem vegir í reglugerð ráðherra.  Hvorki er ástæða til né vinnandi vegur að eltast við þessháttar vegslóðaakstur.  Eðlilegra væri að herða eftirlit og viðurlög vegna landspjalla við utanvegaakstur í stað þess að skilgreina skaðlítinn vegslóðaakstur sem utanvegaakstur og gera refsiverðan.
2.    Í 3. gr. tillögunar er lagt til að votlendi stærri en 1 ha njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga.  Í gildandi lögum er viðmiðið hinsvegar 3 ha sem þótt hefur harla þröng skilgreining.  Markmið breytingarinnar virðist helst vera að auka opinber afskipti af breytingum óverulegs votlendis með tilheyrandi skrifræði og tilkostnaði.  Eins og ráða má af almennum athugasemdum við lagafrumvarpið er 35% af óröskuðu votlendi hérlendis falið í svæðum sem eru 1-3 ha að flatarmáli.  Það þýðir að slík svæði eru ansi mörg og því algengt kjörlendi hérlendis.  37. gr. laga um náttúruvernd er hinsvegar sérstaklega ætlað að vernda það sem er „sérstætt eða fágætt“ eins og segir í 1 mgr.  Það verður að telja gerræðislegt að vernda sérstaklega með lögum öll þau fjölmörgu votlendissvæði sem ekki eru stærri en  1-3 ha að flatarmáli sem sérstæð og fágæt náttúrufyrirbæri og því leggur bæjarráð Norðurþings til að viðmiðun 37 gr. verði óbreytt frá núverandi lögum, þ.e. 3 ha þó möguleg og etv. ásættanleg málamiðlun fælist í því að miða við 2 ha.
3.    Í skógræktarlögum nr. 1/1955 eru nú þegar tiltölulega ítarleg ákvæði til verndar birkiskógum og skógarleifum.  Ennfremur segir í 2. viðauka (1.d) laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að „ruðningur á náttúrulegum skógi“ sé tilkynningarskyldur til Skipulagsstofnunar  vegna mats á umhverfisáhrifum, og þar með framkvæmdaleyfisskyldur.  Því virðist óþarft, og aðeins til þess fallið að auka flækjustig, að bæta verndun birkiskóga inn í 37. gr. laga um náttúruvernd.  Verndun birkiskóga og skógarleifa eru nú í höndum Skógræktar ríkisins.  Sterk rök þarf fyrir því að færa það hlutverk yfir til Umhverfisstofnunar, ekki síst í því ljósi að Umhverfisstofnun hefur ekki náð fullnægjandi hraða í afgreiðslu þeirra mála sem til hennar hefur verið vísað hingað til.
4.    4. gr. þyrfti að breyta verulega.  Greinin virðist hlaðin fordómum gegn öllum aðflutningi nýrra tegunda inn á svæði og skilgreinir óásættanlega þunga skrifræðisferla við leyfisveitingar vegna aðflutnings allra framandi tegunda, ekki aðeins þeirra sem líklegar eru til að verða ágengar.  Greininni er líklega ætlað að hindra f.o.f. útbreiðslu ágengra framandi tegunda og ætti því eingöngu að fjalla um tegundir sem líklegar eru til vandræða á einhvern hátt.  Greinin virðist hinsvegar snúast um að hindra allar breytingar á núverandi umhverfi til góðs eða ills, hversu bagalega sem það er farið af áníðslu undanfarinna alda allt frá landnámi.  Lágmarkið væri að bæta plöntum til trjáræktar í lista 1. mgr. um þær lifandi framandi lífverur sem ekki kalla á formlegt samþykki umhverfisstofnunar gagnvart dreifingu, enda engin dæmi um að erlendar trjátegundir hafi gerst óhóflega ágengar hérlendis.
5.    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð með nánari fyrirmælum um dreifingu lifandi lífvera.  Jafnframt kemur fram að ráðherra geti ákveðið að vissum tegundum megi dreifa án leyfis enda sé ekki talin hætta á að þær ógni líffræðilegri fjölbreytni.  Skv. þessu hefur ráðherra það vald, í samráði við Náttúrufræðistofnun, að ákveða hvaða tegundunum má dreifa í íslenskri náttúru.  Engin ákvæði eru í tillögunni um á hvaða forsendum ráðherra ákveður lista leyfilegra tegunda og hann getur breytt honum án aðkomu Alþingis.  Þannig virðist t.d. búið að gera alla landgræðslu og skógrækt hérlendis háða duttlungum umhverfisráðherra.  Það virðist gerræðislegt og er ekki ásættanlegt að mati bæjarráðs Norðurþings.
6.    Bæjarráð Norðurþings leggur sérstaklega til að ekki verði fjallað um flutning á innlendum tegundum lifandi lífvera í lögunum.  Erfitt er að sjá tilgang með bönnum þar að lútandi og enn erfiðara að framfylgja þeim.
7.    Í umfjöllun 7 gr. Um breytingar á Skipulagslögum nr. 123/2010 er í staflið a talað um svæði sem njóta verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd „þar á meðal svæðum á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun“.  Svæði náttúruminjaskrár og náttúruverndaráætlunar njóta ekki verndar skv. lögum um náttúruvernd nema þau séu friðlýst eða njóti verndar skv. 37. gr. og ætti því að fella þennan texta úr stafliðnum.
8.    Í staflið b í 7. gr. er áréttað að sveitarstjórn skuli ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annara laga og reglugerða sem við eiga við afgreiðslu skipulags.  Eðli máls skv. reyna skipulagsyfirvöld að fylgja öllum settum lögum og reglugerðum við afgreiðslu skipulags og óviðeigandi að tilgreina sérstaklega í skipulagslögum að fylgja skuli lögum um náttúruvernd.
9.    Aftur kemur fram í staflið d að sveitarstjórn skuli sérstaklega gæta að lögum um náttúruvernd á jafnóviðeigandi hátt og greint er í t.l. 6 hér að ofan.
10. Aftur er ranglega gefið í skyn í umfjöllun um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum að svæði á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun njóti sjálfkrafa sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd.
11. Bæjarráð Norðurþings leggur til að í fyrirhugaðri lagabreytingu verði öfgalaust skilgreind nánar þau nútímahraun sem njóta verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd.  Borið hefur á þeirri túlkun að verndunin nái til hrauna sem jafnvel eru þakin þykku lagi af jarðvegi og gróðri og telur nefndin þá víðtæku túlkun óásættanlega íþyngjandi.
Það er skoðun bæjarráðs Norðurþings að það frumvarp sem hér er kynnt sé öfgafullt og óþarflega íþyngjandi fyrir íbúa landsins.  Það á ekki hvað síst við um ákvæði sem virðast íþyngjandi fyrir framgang skógræktar og landgræðslu.