Fara í efni

Fundað með þingmönnum.

Bæjarstjórn Húsavíkurbæjar átti í gær fund með þingmönnum Norðausturkjördæmis þar sem til umræðu voru ýmis hagsmunamál héraðsins.

Bæjarstjórn Húsavíkurbæjar átti í gær fund með þingmönnum Norðausturkjördæmis þar sem til umræðu voru ýmis hagsmunamál héraðsins.

 

Fundað með þingmönnum

Bæjarstjórn Húsavíkurbæjar átti í gær fund með þingmönnum Norðausturkjördæmis þar sem til umræðu voru ýmis hagsmunamál héraðsins.

Rætt var um áhersluatriði í samgöngumálum; nýbyggingu Kísilvegar frá Geitafelli upp í Mývatnssveit; uppbyggingu Norðausturvegar, bæði Öxarfjarðarheiðar og einnig leiðarinnar frá Húsavík að vegamótum við Kross; vegtenginu þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum; veggöng undir Vaðlaheiði og uppbyggingu Húsavíkurhafnar.

Starfsemi Þekkingarseturs Þingeyinga og Náttúrustofu Norðausturlands var kynnt. Einnig hugmyndir um sameiginlega uppbyggingu á vegum Framhaldsskólans á Húsavík, Húsavíkurbæjar og fleiri aðila, sem hýst gæti fræðslu- fræða- menningar- og upplýsingastarfsemi. Þá var farið yfir þróun á rafrænum lyfseðli og nauðsyn þess að tekin verði ákvörðun um upptöku hans á landsvísu sem spara mun hundruðir milljóna í heilbrigðiskerfinu. Þá liggur fyrir að flutningur Doc ehf. til Húsavíkur er háð þeirri ákvörðun, en fyrirtækið hefur unnið að þróun seðilsins.

Tvö verkefni á sviði ferðaþjónustu voru kynnt sérstaklega. Annars vegar uppbygging í Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum og þá sérstaklega gestastofa, Gljúfrastofa, sem áform eru uppi um. Hins vegar var kynnt verkefni sem gengur undir nafninu Garðarsstofa og snýr að því að hefja til vegs og virðingar sögu Garðars Svavarssonar og gera siglingasögu víkinganna skil og rekja þá sögu allt til vorra daga.

Orku- og atvinnumál voru fyrirferðarmikil á fundinum og var farið yfir sýn heimamanna á þau mál. Gerð var grein fyrir þeim orkuauðlindum sem eru í héraði og mögulegum flutningsleiðum raforku til orkufreks iðnaðar sem staðsettur yrði við Húsavík. Sé horft til kostnaðar við flutningsmannvirki og umhverfissjónarmiða virðist ljóst að nýting orkunnar í nágrenni Húsavíkur hefur umtalsvert forskot á aðra þá kosti sem til umræðu hafa verið. Var þingmönnum sérstaklega gerð grein fyrir því mati sveitarstjórnarmanna að nýting orkuauðlindanna sem næst upprunastað væri besti kostur, hvort sem horft væri til heildarhagsmuna þjóðarbúsins, byggðastefnu stjórnvalda eða umhverfissjónarmiða.