Fara í efni

Fyrsta skóflustunga tekin að nýju hjúkrunarheimili á Húsavík

Í dag var tekin fyrsta skóflustunga að nýju og glæsilegu hjúkrunarheimili á Húsavík. 

Aldey Unnar Traustadóttir, forseti sveitarstjórnar, tók fyrstu stungu og markaði þar með upphafið að framkvæmdunum.

Í fyrra var haldin hönnunarsamkeppni um hönnun hjúkrunarheimilsins og var það Arkís, í samstarfi við Mannvit, sem hlaut fyrstu verðlaun.
Á vef Framkvæmdasýslu Ríkisins má finna brot af umsögn dómnefndar:

„Skipulag sambýliseininga styður við heimilisbrag með vistlegum einkarýmum fyrir hvern íbúa sem snúa flest að bænum og frábæru útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Starfsaðstaða er mjög góð þar sem þjónusturými eru miðlæg og vegalengdir stuttar innan hverrar deildar. Heimiliseiningar eru allar jafnstórar og hönnun þeirra auðveldar mönnun og flæði milli þeirra, þ.m.t. yfirsýn yfir heimilið í heild og starfsfólk nýtist m.a. betur á nóttunni. Heimilið er bjart, auðvelt aðgengi er út undir bert loft frá setustofum til að njóta útsýnis og veðurs og tilhögun einkarýma gerir auðvelt fyrir íbúa að rata í herbergi sín.“
Frekar upplýsingar má finna hér á vef fsr.is

Hjúkrunarheimilið verður 60 eininga og 4100 fermetrar að stærð. Fyrirhuguð verklok er árið 2024.