Fyrstu verðlaun í nýsköpunarsamkeppni
Arnór Einar Einarsson, nemandi í 9. bekk Grunnskóla Raufarhafnar , hlaut fyrstu verðlaun í nýsköpunarsamkeppni á vegum samtakanna Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni (LBVRN).
Ár hvert standa samtökin fyrir nýsköpunarverkefninu Heimabyggðin mín – Nýsköpin – Heilbrigði og forvarnir. Grunnskóli Raufarhafnar er einn af níu grunnskólum víðs vegar um landið sem tekur þátt í verkefninu í ár, en það skiptis í tvo hluta. Í fyrri hlutanum setur hver nemandi fram tillögu um nýsköpun í atvinnustarfsemi í heimabyggð sinni og í þeirri síðari sameinast nemendahópurinn um eina tillögu frá skólanum og útfærir hana nánar.
Þriðjudaginn 1. febrúar fór fram verðlaunaafhending fyrir fyrri hlutann við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík. Arnór hélt að sjálfsögðu suður til að veita þeim viðtöku, en honum til halds og traust voru Einar faðir hans og Bryndís Eva umjónarkennarinn hans.
Verkefni Arnórs heitir Síldarþorpið og snýst um að nýta sér söguleg tengsl Raufarhafnar sem einn stærsti síldarsöltunarstaður landsins á tímabili sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Í Síldarþorpinu ætti að vera allt það sem var hér á árum áður, bryggjur, síldarplön o.fl. nema þetta yrði allt í smækkaðri mynd. Jafnframt væri líkan af höfninni á Raufarhöfn og þar væri bátur að sigla inn og landa, konur að salta, börn að leika sér og gamlir menn að spila á harmónikku.
Við óskum Arnóri til hamingju með verðlaunin og vonumst svo sannarlega til þess að hugmynd hans verði að veruleika.