Fara í efni

Gjástykki

Á fundi bæjarráðs 13. janúar síðastliðinn var eftir farandi bókað: Bæjarráð Norðurþings lýsir furðu sinni yfir þeim málflutningi sem Umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun og varða rannsóknarleyfi til Landsvirkjunar í Gjástykki.  

Á fundi bæjarráðs 13. janúar síðastliðinn var eftir farandi bókað:

Bæjarráð Norðurþings lýsir furðu sinni yfir þeim málflutningi sem Umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun og varða rannsóknarleyfi til Landsvirkjunar í Gjástykki.

 

Til upplýsingar er Gjástykki  ríflega 110 km2 svæði sem nær frá landamerkjum Skútustaðahrepps í suðri norður að Kerlingahól í Kelduhverfi og er svæðið að stærstum hluta í Norðurþingi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jarðhitasvæðið Gjástykkis er um 10 km2 að stærð og nær sá hluti svæðisins til þriggja sveitafélaga Norðurþings, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.
Helmingur orkuvinnslusvæðisins eða um 1 km2 er á nýjum hraunum sem runnu í Kröflueldum 1975-1984. Þessi hraun þekja samtals um 36 km2 og nær orkuvinnslusvæðið því einungis yfir tæp 3% af nýju hraununum. Fyrirhuguðum rannsóknarholum hefur verið valin staður á akvegi sem var ruddur í gegnum hraunið skömmu eftir Kröfluelda. Nú þegar hefur verið boruð ein 600 m djúp rannsóknarhola á þessum stað og reyndist botnhiti vera um 200°C.
Sveitarfélögin Norðurþing, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur hafa öll veitt jákvæða umsögn enda er orkuvinnsla í Gjástykki í samræmi við svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum sem staðfest var af Umhverfisráðherra 16. janúar 2008. Markmið heimamanna hefur verið að nýta orkuauðlindir jarðhitasvæða með sjálfbærum hætti til atvinnusköpunar.
Ríkisfyfirtækið Landvirkjun, í samstarfi við heimamenn, sækir um rannsóknarleyfi í Gjástykki og ríkisstofnunin Orkustofnun veitir leyfið, að fenginni jákvæðri umsögn heimamanna og eiganda auðlindarinnar.  Í ljósi þess eru viðbrögð ráðamanna þjóðarinnar við veitingu rannsóknarleyfis með ólíkindum.  Niðurstaðan er sú að eigandi Landsvirkjunar leggur til að rannsóknarleyfið verði ekki nýtt til þess að afla nauðsynlegra upplýsinga um orkugetu svæðisins.  Bæjarráð harmar þessa niðurstöðu og leggur ríka áherslu að svæðið verði rannsakað til hlýtar.
 
Trausti Aðalsteinsson, áheyrnarfulltrúi V listans, tekur ekki undir bókun bæjarráðs.