Fara í efni

Góð mæting á kynningarfund PCC og Norðurþings

Vel var mætt á kynningarfund um kísilmálmverksmiðju á Bakka á Húsavík sem haldinn var í kvöld en þar kynntu verkefnastjórnar frá fyrirtækinu PCC SE starfsemi fyrirtækisins auk þess sem Ólafur Árnason frá verkfræðifyrirtækinu Eflu kynnti matsáætlun verkefnisins.

Vel var mætt á kynningarfund um kísilmálmverksmiðju á Bakka á Húsavík sem haldinn var í kvöld en þar kynntu verkefnastjórnar frá fyrirtækinu PCC SE starfsemi fyrirtækisins auk þess sem Ólafur Árnason frá verkfræðifyrirtækinu Eflu kynnti matsáætlun verkefnisins.

„Þetta var góður fundur, þeir komu og kynntu fyrirtækið; hvar það starfar, hvað þeir gera og þess háttar, og síðan var íslenska verkefnið kynnt sérstaklega,“ sagði Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, eftir fundinn.

 Engar nýjar fréttir komu fram á fundinum að sögn Bergs en megin tilgangur hans var að hafa ferlið opið og gefa íbúum tækifæri á að spyrja spurninga og tala beint við fulltrúa fyrirtækisins.

„Menn höfðu mikinn áhuga á því að vita hvers konar störf munu skapast og síðan var spurt um mengun, framleiðsluna og slíkt,“ segir Bergur en einnig hafi verið rætt um þátttöku fyrirtækisins í samfélaginu, sem ku vera mikil þar sem það starfar í Þýskalandi og víðar.

Vinna er hafin við mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju en gert er ráð fyrir að framleiðslugeta hennar verði allt að 66 þúsund tonn á ári. Á fyrirtækið í viðræðum við Landsvirkjun um raforkukaup en heildarorkuþörf hennar verður um 52MW í upphafi og 104MW eftir stækkun.

heimild: http://www.640.is/