Góður árangur nemenda á þjónustusvæði Fjölskylduþjónustu Þingeyinga í PISA-könnuninni 2006
Á aðalfundi Grunns 7. desember s.l kynnti fulltrúi frá Námsmatsstofnun fyrir starfsfólki skólaskrifstofa á landinu helstu niðurstöður úr PISA - könnuninni 2006 um Ísland.
Í skýrslunni kemur fram að það eru nemendur frá Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og eystra sem sýna bestu frammistöðuna.
Þegar niðurstöður úr skýrslunni um Ísland eru skoðaðar nánar og þær flokkaðar niður á Skólaskrifstofur á landinu kemur í ljós að árangur 15 ára nemenda á þjónustusvæði Fjölskylduþjónustu Þingeyinga er þar í efri mörkunum miðað við þær þrjár námsgreinar sem um er rætt en það er lesskilningur, stærðfræði og náttúrufræði.
Þjónustusvæði Fjölskylduþjónustu Þingeyinga tilheyra 9 skólar en 7 þeirra bjóða upp á kennslu á unglingastigi en það eru Reykjahlíðarskóli, Litlulaugaskóli, Hafralækjarskóli, Borgarhólsskóli, Öxarfjarðarskóli, Grunnskóli Raufarhafnar og Grunnskólinn á Þórshöfn.
Í lesskilningi sýna nemendur frá þremur skólaskrifstofum á landinu marktækan betri árangur en meðaltal Íslands og eru nemendur á þjónustusvæði Fjölskylduþjónustu Þingeyinga þar á meðal en þeir koma út með næst bestan árangur á landinu.
Í stærðfræði sýna nemendur frá fjórum skólaskrifstofum á landinu marktækan betri árangur en meðaltal Íslands og eru nemendur á þjónustusvæði Fjölskylduþjónustu Þingeyinga þar á meðal en þar komu þeir einnig út með næst bestan árangur á landinu.
Í náttúrufræði sýna nemendur frá fjórum skólaskrifstofum á landinu betri árangur en meðaltal Íslands og eru nemendur á þjónustusvæði Fjölskylduþjónustu Þingeyinga þar á meðal með fjórða besta árangur á landinu, en þessi árangur telst þó ekki tölfræðilega marktækur vegna nemendafæðar.