Höfðinglegar gjafir frá Norðlenska
Stjórn Samhljóms og meðlimum Karlaklúbbsins Sófíu var boðið í heimsókn í Norðlenska í dag. Tilefnið var að veita rausnarlegum gjöfum frá Norðlenska viðtöku sem notaðar verða til góðgerða fyrir jólin.
Gjafirnar eru 15 talsins og ekki af verri endanum. Í hverjum pakka er verðlauna hamborgarhryggurinn frá fyrirtækinu ásamt verðlauna hangilærinu. Þar með er ekki allt upp talið því einnig má finna grænar og gular baunir, rauðkál og svo auðvitað Nóa-konfektið, sem Sigmundur Hreiðarsson, kjötiðnaðarmeistari, fullyrti að væri heimsins besta konfekt.
Það er því óhætt að segja að enginn verði svikinn af þessari frábæru gjöf nú rétt fyrir jólin. Sigmundur sagði við þetta tækifæri að hingað til hefði Norðlenska gefið fjárupphæð til góðgerðamála fyrir jólin og þá hefði Samhljómur séð um útbýtingu fjármuna. Fyrirtækið hafi hinsvegar ákveðið að þessi leið skildi farin núna eftir að hafa ráðfært sig við Guðna Bragason úr stjórn Samhljóms. Það er von þeirra aðila sem að þessum matargjöfum koma, að þetta nýja fyrirkomulag reynist betur. Stjórn Samhljóms settist þegar á rökstóla og ákveða í sameiningu á hvaða heimilum þessar gjafir nýtast best. Það er einmitt vilji og markmið samtakanna að létta undir með þeim heimilum sem sárast þurfa á aðstoð að halda og þá sérstaklega nú fyrir jólin.
Fulltrúar Samhljóms voru Ágúst Óskarsson, Margrét G. Þórhallsdóttir, Guðni Bragason og Hjálmar Ingimarsson. Hjálmar og Guðni eru einnig í Karlaklúbbnum Sófíu en samstarf klúbbsins og Samhljóms á sér nú nokkurra ára sögu í tengslum við styrktartónleikana sem haldnir eru fyrir jólin. Þeir tónleikar voru einmitt haldnir á sunnudaginn síðasta og heppnuðust mjög vel.
Það er rík ástæða að þakka þeim hjá Norðlenska vel og mikið fyrir að sýna slíkan hlýhug í garð náungans fyrir jólin og vill stjórn Samhljóms og Karlaklúbburinn Sófía koma á framfæri sérstökum þökkum til Simma, Danna, Arnars og allra hinna í Norðlenska fyrir gjafirnar. Þær eiga eftir að rata á góða staði.