Fara í efni

Hrútadagurinn á Raufarhöfn

Hrútadagurinn á Raufarhöfn verður nú haldinn í þriðja sinn laugardaginn 6. október næstkomandi í Faxahöllinni á Raufarhöfn. Þar verða til sölu hrútar frá um 20 bæjum úr Öxarfirði, Sléttu, Þistilfirði og Langanesi. Um er að ræða 300 Norður-Þingeysk vöðvabúnt, en yfirdýralæknisembættið hefur gefið út 156 leyfi af þessu svæði. Salan hefst kl. 12:00. Yfir daginn verða ullarvörur af svæðinu til sýnis og sölu ásamt öðrum hagnýtum vörum fyrir sauðfjárrækt. Einnig er fyrirhuguð Íslandsmeistarakeppni í kjötsúpugerð. Um kvöldið verður hagyrðingakeppni og dansleikur á Hóteli Norðurljósum. Hrútadagurinn hefur mælst afar vel fyrir meðal fólks sem hefur sótt hann.  

Hrútadagurinn á Raufarhöfn verður nú haldinn í þriðja sinn laugardaginn 6. október næstkomandi í Faxahöllinni á Raufarhöfn. Þar verða til sölu hrútar frá um 20 bæjum úr Öxarfirði, Sléttu, Þistilfirði og Langanesi. Um er að ræða 300 Norður-Þingeysk vöðvabúnt, en yfirdýralæknisembættið hefur gefið út 156 leyfi af þessu svæði. Salan hefst kl. 12:00. Yfir daginn verða ullarvörur af svæðinu til sýnis og sölu ásamt öðrum hagnýtum vörum fyrir sauðfjárrækt. Einnig er fyrirhuguð Íslandsmeistarakeppni í kjötsúpugerð. Um kvöldið verður hagyrðingakeppni og dansleikur á Hóteli Norðurljósum. Hrútadagurinn hefur mælst afar vel fyrir meðal fólks sem hefur sótt hann.

 

Lengi hefur verið leyfð sala á líffé úr Þistilfirði og Langanesi, en fyrir fáum árum var lífsölusvæðið stækkað, þannig að Öxfirðingar og Sléttubændur fengu einnig leyfi fyrir sölu. Það var því orðið úr mörgum bæjum að velja fyrir kaupendur og ljóst að þeir sem voru í kauphugleiðingum gætu ekki skoðað á mörgum bæjum þegar þeir kæmu í héraðið.

Það var hópur framtakssamra bænda í Þistilfirði, Sléttu og Öxarfirði sem ákváðu að safna þeim hrútum saman á einn stað sem bændum á þessu svæði þóttu söluhæfir.  Þetta var gert m.a. til að auðvelda kaupendum valið, þ.e.a.s. að hafa hrútana alla á einum stað og geta borið þá saman. Faxahöllin á Raufarhöfn var ákjósanlegur staður, miðsvæðis á sölusvæðinu og góð aðstaða fyrir bæði menn og fé. En einnig er þetta gert til að koma saman, bændur af svæðinu og þeir sem eru lengra að komnir í kauphugleiðingum, ásamt öðrum sem eru áhugasamir um ræktun á sauðfé.

Varðandi reglur um val á hrútum, verður sú regla nú viðhöfð að þegar salan byrjar geta kaupendur farið í hrútasafnið og valið sér hrút, en hver bær hefur afmarkað svæði.  Þegar kaupandinn hefur valið sér hrút, verður að taka hann úr sölustíunum, setja hann í stíu með seldum hrútum og skrá hrútinn hjá ritara Faxahallar.  Ekki er leyfilegt að merkja sér fleiri hrúta en ætlunin er að kaupa. Þegar hrútur er tekin úr sölustíu telst hann seldur. Margir hrútar verða til sölu, frá mörgum ræktendum, svo ætla mætti að allir geti fengið hrút við sitt hæfi. Leiðbeinandi verð á hverjum hrút er 13 þúsund krónur auk þúsund krónum á hvert stig umfram 80 stig. Dýralæknir verður á staðnum og sprautar þá hrúta sem keyptir eru út af svæðinu, þannig að kaupendur geta farið með hrútana sína heim. Kaupendum er bent á að hafa með sér leyfi frá yfirdýralæknisembættinu. Á staðnum verða sérfræðingar í sauðfjárrækt sem eru tilbúnir að veita alla þá aðstoð sem menn óska við val á lífhrútum. Í  lok söludagsins eða um kl. 17.00 verða boðnir upp þeir hrútar sem stiguðust hæst á svæðinu, þar gildir sú regla að sá sem býður hæst fær hrútinn. Þessi liður féll niður síðast, vonandi kemur það ekki fyrir núna.

Handverksfólk á svæðinu, frá Þórshöfn að Húsavík, verður með ullarvörur til sölu í höllinni og einnig verður til sýnis klaufsnyrtistóll og sundurdráttarrenna sem hönnuð er af hugvitsmanni á Melrakkasléttu. Þá verða til sölu litabelti á hrúta til notkunar á fengitíð ásamt litum. Innflutningsfyrirtækið Búvís, sem flytur inn ýmsar vörur til notkunar í landbúnaði, verður með vörur til sýnis.

Fyrirhuguð er Íslandsmeistarakeppni í kjötsúpugerð og hefur nokkrum fyrirtækum verið boðið að taka þátt. Þessi keppni verður í Faxahöllinni meðan kaupendur eru að velja sér hrúta og gefst fólki tækifæri á að smakka.

Að kvöldi eða kl. 21.00  verður hagyrðingakeppni á Hóteli Norðurljósum, þar sem landsþekktir hagyrðingar keppa. Á eftir hagyrðingakeppninni eða um kl. 23.00 hefst svo dansleikur þar sem Hrútabandið leikur fyrir dansi.  Hótel Norðurljós er í göngufæri frá Faxahöllinni ef menn eru ekki tilbúnir að keyra og einnig er tilboð á gistingu um nóttina. Allt gistirými er upppantað aðfaranótt laugardags.