Húsnæðisáætlun Norðurþings 2019 - 2026
Formáli
Húsnæðismál hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni á undanförnum misserum og á landsvísu ríkir vandi í þessum efnum. Umræðan hefur verið um tvenns lags vanda, þ.e. annarsvegar vandann sem miklar hækkanir íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og vöntun á hagstæðum íbúðum inn á þann markað hafa haft en ekki síður hefur umræðan verið tengd eðlilegri íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins hvar víða er allt of mikill munur á markaðsverði fasteigna og byggingarkostnaði. Í þessu samhengi hafa t.a.m. nýbyggingar á Norðurlandi utan Akureyrar verið í sögulegu lágmarki undanfarin ár þrátt fyrir mikinn hagvöxt.
Hinn áberandi fjölþætti húsnæðisvandi í landinu hefur m.a. leitt til þess að Íbúðalánasjóði var fengið það verkefni að aðstoða sveitarfélögin við gerð húsnæðisáætlana til að draga fram mynd af því hver staða þessara mála er í raun og veru hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Greina þarf framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja þarf fram áætlanir um hvernig sveitarfélögin geti mætt húsnæðisþörf heimila til skemmri og lengri tíma.
Markmið húsnæðisáætlunar Norðurþings er eins og annarra sambærilegra áætlana fyrst og síðast að stuðla að auknu húsnæðisöryggi heimila í sveitarfélaginu. Það markmið skal nást með því m.a. að greina núverandi stöðu í félagslegu-, efnahagslegu- og atvinnulegu tilliti og byggja áætlanir á spám um mannfjöldaþróun á hverju svæði fyrir sig til næstu 8 ára. Markmið húsnæðisáætlunar Norðurþings er jafnframt að með henni verði til lifandi plagg sem gefi góða mynd af húsnæðismarkaðnum á hverjum tíma og færi hagsmunaaðilum sýn sveitarfélagsins á það hvernig best sé að mæta húsnæðisþörf í sveitarfélaginu til næstu ára.
Ríkar skyldur eru á herðum sveitarfélaga í landinu er snúa að félagslegri aðstoð, m.a. í húsnæðislegu tilliti og jafnframt annast sveitarfélög framkvæmd laga um almennar íbúðir sem samþykkt voru í júní 2016. Norðurþing stendur ásamt nágrannasveitarfélögunum í Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppi og Tjörneshreppi að rekstri íbúða fyrir aldraða á vegum Dvalarheimilisins Hvamms svo þessar staðreyndir eru hafðar til hliðsjónar við gerð þessarar húsnæðisáætlunar.
Helstu forsendur sem liggja til grundvallar húsnæðisáætluninni eru gildandi skipulagsáætlanir, ásamt greiningu á lýðfræði- og tölfræðiupplýsingum frá Hagstofunni, Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun, Þekkingarneti Þingeyinga og Þjóðskrá. Einnig er byggt að stórum hluta á skýrslu um húsnæðismál sem unnin var í samstarfi við Alta ráðgjafastofu árið 2016.
Það eru mikilvægar forsendur í rekstri allra sveitarfélaga að húsnæðismarkaðurinn sé í eðlilegu jafnvægi og að allir hópar fólks búi við hentug og örugg úrræði í þeim efnum. Það er einlæg von mín að sveitarfélagið Norðurþing muni vaxa og dafna á næstu árum og að hér verði áfram gott að búa. Sú ósk mun rætast nái markmiðið um áframhaldandi eflingu atvinnulífsins fram að ganga í takti við nægt framboð húsnæðis. Þessu þarf að fylgja eðlilegt jafnvægi á milli húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar svo margir hagsmunaaðilar verða að koma hér að málum svo þetta getið gengið eftir. Það er lykilatriði að húsnæðismálin verði ekki flöskuháls á frekari uppbyggingu fjölbreyttra atvinnutækifæra á svæðinu. Því vona ég að þessi skýrsla verði lítið en mikilvægt púsl í þá jákvæðu framtíðarmynd sem nauðsynlegt er að unnið sé að með samstarfi sveitarfélagsins og allra hagsmunahafa, einstaklinga, fyrirtækja og stofnana á svæðinu.
Kristján Þór Magnússon, sveitastjóri
Hér má lesa áætlunina í heild sinni;
https://www.nordurthing.is/static/files/log-og-reglur/husnaedisaaetlunnordurthings_2019_2026.pdf