Fara í efni

Húsvíkingar og nærsveitamenn bjóða Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar og eiginmann hennar Daníel prins velkomin til Húsavíkur

Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar og Daníel prins heimsækja Ísland í boði forseta Íslands og koma til Húsavíkur 19. júní.


Íbúum bæjarins gefst tækifæri til að taka á móti og hitta krónprinsessuna kl. 12:00 á hádegi á hafnarstétt á Húsavík. Þangað koma gestirnir ásamt forseta Íslands og forsetafrú og fylgdarliði að lokinni hvalaskoðunarferð.

Ungir sem eldri Húsvíkingar eru hvattir til að fjölmenna og þeir sem vilja geta tekið með sér íslenska og sænska fána.

Húsavík hefur á undanförnum árum verið vettvangur Sænskra daga og unnið er að uppbyggingu Garðarshólms í samvinnu við sænska aðila.

Að lokinni stund með íbúum Húsavíkur situr Viktoría krónprinsessa ásamt Daníel prins og forsetahjónunum hádegisverð í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og frú Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur.