Fara í efni

Hvalveiðar við Ísland

Bæjarráð Húsavíkurbæjar samþykkti á fundi sínum, fimmtudaginn 21. ágúst, bókun varðandi yfirstandandi hvalveiðar við Ísland. Bæjarráð hafði, í júlí s.l. sent stjórnvöldum áskorun þess efnis að vísindarannsóknir á hvölum yrðu framkvæmdar í samráði við hvalaskoðunarfyrirtækin í landinu og hagsmunaaðila ferðaþjónustunnar. Bókunin er eftirfarandi:

Bæjarráð Húsavíkurbæjar samþykkti á fundi sínum, fimmtudaginn 21. ágúst, bókun varðandi yfirstandandi hvalveiðar við Ísland. Bæjarráð hafði, í júlí s.l. sent stjórnvöldum áskorun þess efnis að vísindarannsóknir á hvölum yrðu framkvæmdar í samráði við hvalaskoðunarfyrirtækin í landinu og hagsmunaaðila ferðaþjónustunnar.
Bókunin er eftirfarandi:

Bæjarráð Húsavíkurbæjar beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að þau endurskoði fram komna áætlun um vísindaveiðar á hvölum og harmar það að ekki skuli hafa verið haft samráð við hagsmunasamtök ferðaþjónustunnar og hvalaskoðunarfyrirtækja við fyrirkomulag nýhafinna vísindaveiða. Bæjarráð ítrekar afstöðu sína frá 25. júlí s.l. þar sem m.a. var hvatt til slíks samráðs.

Ef áform Hafrannsóknarstofnunar um veiðar á árunum 2004 og 2005 verða að veruleika verða þær alvarleg ógnun við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu á Húsavík og nágrenni á undanförnum árum. Gerir bæjarráð þá kröfu að vísindarannsóknum á hvölum verði svo fyrir komið í framtíðinni að ekki ógni þeirri starfsemi sem byggir afkomu sína á einum helsta vaxtarbroddi íslenskrar ferðaþjónustu, hvalaskoðun.