Jarðgöng undir Vaðlaheiði. 100 milljónir frá KEA
Aðalfundur Greiðrar leiðar ehf. - undirbúningsfélags vegna Vaðlaheiðarganga var haldinn á Akureyri 28. júní s.l. Fram kom að KEA er tilbúið að leggja allt að 100 milljónir króna í framkvæmdafélag vegna fyrirhugaðra Vaðlaheiðarganga. Stjórn Greiðrar leiðar ehf. var endurkjörin.
Aðalfundur Greiðrar leiðar ehf. – undirbúningsfélags vegna Vaðlaheiðarganga haldinn á Akureyri 28. júní sl:
KEA tilbúið að leggja allt að 100 milljónir króna í framkvæmdafélag vegna Vaðlaheiðarganga
Á aðalfundi Greiðrar leiðar ehf. – undirbúningsfélags um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði – á Akureyri 28. júní sl. var kynnt samþykkt stjórnar Kaupfélags Eyfirðinga svf. frá 21. júní sl. sem kveður á um að félagið kallar eftir stofnun framkvæmdafélags um gerð Vaðlaheiðarganga og er tilbúið að tryggja hlutafé allt að 100 milljónir króna til félagsins.
Greið leið ehf. var stofnuð 28. febrúar 2003, en að félaginu standa öll sveitarfélög, sem eiga aðild að Eyþingi – sambandi
sveitarfélaga á Norðurlandi eystra - auk tíu fyrirtækja. Tilgangur félagsins er að standa fyrir nauðsynlegum undirbúningi fyrir stofnun
félags um gerð og rekstur jarðganga undir Vaðlaheiði. Þar með talið er kynningarstarf, áætlanagerð og samningar við ríki og
fjárfesta.
Á fyrsta aðalfundi Greiðrar leiðar á Akureyri 28. júní sl. sagði stjórnarformaður félagsins, Pétur Þór
Jónasson, að fyrir liggi að Vaðlaheiðargöng yrðu blönduð framkvæmd með þátttöku ríkisins – horft sé til
þess að ríkið verði með sem næst 40-45% eignarhlut í verkefninu en 55-60% kostnaðar verði fjármögnuð með veggjöldum.
Stjórn Greiðrar leiðar hefur kynnt verkefnið fyrir þingmönnum og samgönguyfirvöldum og haft náið samráð við stjórnendur
Vegagerðarinnar. Þá hefur verkefnið verið kynnt fyrir samgönguráðherra.
Fram kom á aðalfundi Greiðrar leiðar að vonir væru bundnar við að við endurskoðun vegaáætlunar í haust verði
Vaðlaheiðargöngum markaðir fjármunir til undirbúningsrannsókna, en ljóst er að næst þarf að ráðast í ýmsar
undirbúningsframkvæmdir vegna ganganna. Kaupfélag Eyfirðinga hefur þegar samþykkt að leggja fram 5 milljónir króna til
undirbúningsrannsóknanna, sem verði færðar sem hlutafé í framkvæmdafélagi um göngin.
Pétur Þór Jónasson sagði á aðalfundinum að hann hefði þann 28. maí sl. átt fund með þingmönnum
Norðausturkjördæmis þar sem í fyrsta lagi var óskað eftir stuðningi þingmanna við að Vegagerðin vinni rannsóknaráætlun
fyrir Greiða leið vegna undirbúningsrannsókna, í öðru lagi að Vaðlaheiðargöng fari inn á vegaáætlun við endurskoðun
hennar í haust og í þriðja lagi að þingmenn tryggi viðbótarfjármagn til undirbúningsrannsókna, allt að fimm milljónir
króna, til viðbótar við framlag KEA.
Miðað við þá veglínu sem til þessa hefur verið til skoðunar yrðu Vaðlaheiðargöng um 7,2 km að lengd. Forskálar yrðu um
200 metrar, um 50 metrar vestan ganganna og um 150 metrar austan ganganna. Leggja þyrfti nýja vegi að göngunum, samtals um 2 km að lengd. Í samanburði við
þjóðveg eitt um Víkurskarð yrði stytting leiðarinnar með tilkomu jarðganga á bilinu 15-16 km.
Almennt er talið að jarðfræðilegar aðstæður séu hagstæðar í Vaðlaheiði til jarðgangagerðar. Jarðlögin eru 9-10
milljóna ára gamalt basalt og er bergið talið vera víðast hvar nokkuð þétt og leki því óverulegu.
Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, greindi frá því á aðalfundi Greiðrar leiðar, að
meðaltalsumferð árið 2003 um Víkurskarð hefði verið 980 bílar á sólarhring – yfir sumarmánuðina – júní,
júlí og ágúst - væri sólhringsumferðin að meðaltali 1590 bílar. Hreinn sagði að ætla mætti að við opnun
ganganna yrði fjórðungs aukning umferðar á þessari leið og færi að jafnaði upp í um 1225 bíla á sólarhring. Þetta
er sem næst þriðjungur umferðar um Hvalfjarðargöng.
Hreinn sagði að samkvæmt endurskoðaðri áætlun myndi heildarkostnaður við Vaðlaheiðargöng nema um 5 milljörðum króna –
án fjármagnskostnaðar (með vsk). Inni í þessari tölu er kostnaður vegna allra undirbúningsrannsókna, hönnunar, eftirlits og gerðar
sjálfra ganganna.
Fyrir liggur að næstu skref í undirbúningi Vaðlaheiðarganga er að ráðast í jarðfræðikortalagningu á svæðinu. Velja
þarf heppilegustu veglínuna, sem þarf bæði að taka mið af jarðlögum og tengingu við vegakerfið beggja vegna Vaðlaheiðar. Að
öllum rannsóknum loknum verður unnt að endurmeta kostnað við gerð Vaðlaheiðarganga og taka endanlega ákvörðun um framkvæmdina.
Ætla má að kostnaður við undirbúning gangagerðarinnar nemi 100-150 milljónum króna, sem er 2-3% af áætluðum 5 milljarða
heildarkostnaði við Vaðlaheiðargöngin. Af þessum 100-150 milljóna króna undirbúningskostnaði er áætlað að rannsóknir
nemi 25%, umhverfismat 10% og hönnun og útboð 65%.
Gróft áætlað er talið að leiðaval og jarðfræðirannsóknir vegna Vaðlaheiðarganga taki um eitt ár. Lokarannsóknir,
matsferli, hönnun og gerð útboðs taki tvö ár og framkvæmdirnar sjálfar taki um þrjú ár.
Á aðalfundi Greiðrar leiðar ehf. var endurkjörin stjórn félagsins. Formaður er Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri
Eyþings – sambands sveitarfélaga á Norðurlandi eystra - og aðrir aðalmenn í stjórn eru Andri Teitsson, framkvæmdastjóri
Kaupfélags Eyfirðinga, og Ásgeir Magnússon, forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri. Varamenn í stjórn eru Jóhann
Guðni Reynisson, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, og Bjarni Jónasson, bæjarfulltrúi á Akureyri.