Kæru íbúar
Kæru íbúar.
Framkvæmdasvið Norðurþings vill koma á framfæri þakklæti og hlýhug til þeirra íbúa sem sýnt hafa mikla þolinmæði og skilning vegna þeirra aðstæðna sem sér í lagi starfsmenn þjónustumiðstöðva sveitarfélagsins hafa staðið frammi fyrir undanfarnar tvær vikur í kjölfar mikils fannfergis í þéttbýli.
Framkvæmdasvið sveitarfélagsins vill einnig koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu verktaka sem tekið hafa þátt í verkefninu, fyrir úthald og elju við oft á tíðum erfiðar aðstæður.
Snjómokstur og snjóhreinsun í kjölfarið og nú síðast klakaeyðing og hálkuvarnir, hafa verið bæði mann- og tímafrekar aðgerðir og fullljóst að við slíkar aðstæður getur reynt verulega á þolinmæði íbúa.
Íbúar hafa þó sýnt bæði ástandinu og aðgerðunum aðdáunarverðan skilning þar sem um er að ræða mjög óvenjulegar aðstæður sem ógerningur er að ráða fram úr með venjubundnum hætti.
Það er starfsmönnum sveitarfélagsins og verktökum mikils virði að finna fyrir þeim samhug, samstöðu og tillitssemi sem íbúar sýna þegar slíkar veðurfarslegar aðstæður koma upp og viljum við þakka fyrir það.
F.h. framkvæmdasviðs
Gunnar Hrafn Gunnarsson
Framkvæmda- og þjónustufulltrúi