Fara í efni

Kísilmálmverksmiðja á Bakka - opinn kynningarfundur

Ágætu Þingeyingar. Vinna er nú hafin við mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar byggingar á kísilmálmverksmiðju PCC SE á iðnaðarsvæðinu á Bakka á Húsavík. PCC er fjölþjóðleg fyrirtækjasamsteypa í eigu PCC SE eignarhaldsfélagsins með höfuðstöðvar í Duisburg í Þýskalandi. Í dag eru fyriræki PCC samsteypunnar með starfsemi í 13 löndum með um 2.200 starfsmenn. Starfsemin nær yfir þrjár megingreinar: efnaframleiðslu, orkuframleiðslu og flutninga (logistics). Áætluð velta ársins 2011 er alls um 620 milljónir evra.

Ágætu Þingeyingar.

Vinna er nú hafin við mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar byggingar á kísilmálmverksmiðju PCC SE á iðnaðarsvæðinu á Bakka á Húsavík. PCC er fjölþjóðleg fyrirtækjasamsteypa í eigu PCC SE eignarhaldsfélagsins með höfuðstöðvar í Duisburg í Þýskalandi. Í dag eru fyriræki PCC samsteypunnar með starfsemi í 13 löndum með um 2.200 starfsmenn. Starfsemin nær yfir þrjár megingreinar: efnaframleiðslu, orkuframleiðslu og flutninga (logistics). Áætluð velta ársins 2011 er alls um 620 milljónir evra. Meðal fyrirtækja í PCC samsteypunni er efnaverksmiðja í Wroclaw í Póllandi sem er ein stærsta verksmiðja sinnar tegundar í landinu, þar sem framleidd eru efni fyrir plastiðnað, húsgagnaframleiðslu og efni fyrir framleiðslu á þvotta- og hreinsiefnum. Meðal helstu framleiðsluvara PCC eru einnig kaldsvampur sem notaður er í hágæða heilsudýnur.

Á sviði orkuframleiðslu hefur PCC einbeitt sér að vinnslu á raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum og samvinnslu raf- og varmaorku í verkefnum í Austur- og Suðaustur-Evrópu. Þar hefur PCC einkum tekið þátt í verkefnum í verndun loftslags á Balkanskaga með byggingu smárra vatnsaflsvirkjana. Fyrsta vatnsaflsvirkjun PCC hóf að framleiða rafmagn í febrúar 2009.

Á sviði flutninga hefur orðið aukning í umsvifum PCC í gámaflutningum í Póllandi og lestarflutningum í Rússlandi.

PCC SE hefur falið EFLU verkfræðistofu að annast mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Samstarfssamningur hefur verið gerður milli sveitarfélagsins Norðurþings og PCC SE um verkefnið sem felst í uppbyggingu á verksmiðju á Bakka til framleiðslugetu allt að 66.000 tonnum á ári af af kísilmálmi. Verksmiðjan verður reist í tveimur áföngum, sá fyrri verður 33.000 tonn á ári.  Gert er ráð fyrir að verksmiðjan rísi á um 20 ha á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Samningaviðræður standa yfir milli fyrirtækisins og Landsvirkjunar um kaup á orku til verksmiðjunnar en heildar orkuþörf hennar verður um 52 MW í upphafi og 104 MW þegar stækkun er lokið.

Áætlað er að 150 framtíðarstörf skapist við rekstur kísilmálmverksmiðjunnar að ótöldum þeim störfum sem að skapast á svæðinu vegna kaupa verksmiðjunnar á orku og þjónustu.

Frá 1. desember til 22. desember verða til kynningar drög að tillögu að matsáætlun þar sem grein er gerð fyrir framleiðslunni og áhersluþáttum mats á umhverfisáhrifum sem nú er að hefjast.  

Norðurþing og PCC SE hafa boðað til opins kynningarfundar um verkefnið sem verður haldinn í Fosshóteli á Húsavík kl. 17:30 þann 13. desember. Ég vill nota þetta tækifæri til að hvetja sem flesta til að mæta á fundinn þar sem fyrirtækið verður kynnt ásamt matsáætlun. Að því loknu verður opnað fyrir fyrirspurnir þar sem fundarmönnum gefst tækifæri á að spyrja forsvarmenn PCC og Norðurþings spurninga um næstu skref málsins.

 

Virðingarfyllst

Bergur Elías Ágústsson
Bæjarstjóri Norðurþings