Fara í efni

Kísilverksmiðja á Bakka

Kísilverksmiðja þýska fyrirtækisins PCC verður líklega fyrsta verksmiðjan sem rís við Húsavík.

Kísilverksmiðja þýska fyrirtækisins PCC verður líklega fyrsta verksmiðjan sem rís við Húsavík.

Samstarfsyfirlýsing verður rædd í dag í sveitarstjórn Norðurþings. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

"Það væri þá fyrsta fyrirtækið til að hefja verklegar framkvæmdir hér á okkar svæði," segir Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri Norðurþings. "Þetta er viljayfirlýsing um það að undirbúa ákveðna hluti. Það er ljóst að þeir hafa sótt um lóð fyrir sína starfsemi á Bakka og þetta er næsta skref í því máli. Menn munu fara í gegnum áreiðanleikakönnun og annað hvað varðar fyrirhugaða verksmiðju hér á okkar svæði."

Viðræður standa yfir við Landsvirkjun um orkuafhendingu frá Þeistareykjum og orkuverð. Bergur segir annarra að meta hvort verksmiðjan sé háð umhverfismati en hjá sveitarfélaginu sé undirbúningur kominn á fullan skrið.

Verksmiðjan verður byggð í áföngum en stefnt er að því að framleiðslugeta verði um 66 þúsund tonn á ári. Í fyrsta áfanga yrði orkuþörfin um 30 megawött. Bergur segir að þessir samningar útiloki ekki stóran orkukaupanda á borð við ALCOA.

"Það er nóg pláss á Bakka, þetta er 200 hektara lóð þannig að við höfum ekki áhyggjur af því og allir eru meðvitaðir um að hér á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslunum er mikla orku að finna. Þannig að ég held að það verði ekki stórt vandamál," segir Bergur.

heimild: ruv.is