Konur í pólitík - kynningarfundur
Fimmtudagskvöldið, 28. janúar var haldið kynningarkvöld fyrir konur um pólitík í sal stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík.
Kynningarkvöldið var haldið á vegum kvenna í pólitík.
Katrín Eymundsdóttir var fundarstjóri. Á kynningarkvöldinu voru haldin nokkur stutt ávörp/erindi.
Freydís Jóna Freysteinsdóttir félagsmálastjóri og jafnréttisfulltrúi hélt erindi um stöðu mála hjá Norðurþingi og mikilvægi þess að fá fleiri konur í sveitarstjórn og nefndir. Óli Halldórsson hélt erindi þar sem m.a. kom fram staða kvenna í pólitík í ýmsum löndum.
Fulltrúar hvers stjórnmálaflokks héldu erindi; Olga Gísladóttir frá Sjálfstæðisflokki, Dóra Fjóla Guðmundsdóttir frá Samfylkingu Kristjana María Kristjánsdóttir frá Framsóknarflokki, og Kolbrún Gunnarsdóttir frá Vinstri Grænum. Fundarstjóri hélt að lokum erindi um sína aðkomu í pólitík. Fram kom hjá Katrínu að hún hefði setið fund á áttunda áratugnum sem fjallaði um hið sama og nú, að nauðsynlegt væri að fjölga konum í pólitík.
Líflegar umræður sköpuðust á fundinum enda vel mætt af góðum hópi kvenna. Komu m.a. þau sjónarmið fram hjá nokkrum konum að enginn flokkanna samræmdist þeirra viðhorfum nægilega vel. Aðrar konur lögðu á það áherslu að hægt væri að stofna þá eigin flokk eða velja þann flokk sem kæmi næst viðhorfum þeirra. Fram kom hjá þeim konum sem starfa í pólitík að þær eru mjög ánægðar í því hlutverki, þ.e. að hafa tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á gang mála hjá sveitarfélaginu.