Kynningarfundur innkaupareglur, fjárhags- og framkvæmdaáætlun fór fram í síðustu viku
Kynningarfundur um fjárhagsáætlun, framkvæmdir og breytingar á innkaupastefnu og innkaupareglum Norðurþings var haldinn fimmtudaginn 5. janúar sl. Fundurinn var vel sóttur en hann var sérstaklega boðaður meðal verktaka í sveitarfélaginu. Fundurinn var haldinn í Stjórnsýsluhúsinu á Húsavík en einnig var hægt að fylgjast með í fjarfundi.
Á fundinum fór Bergþór Bjarnason fjármálastjóri yfir helstu forsendur og niðurstöður fjárhagsáætlunar næsta árs og þriggja ára áætlunar. Hægt er að sjá greinargerð Bergþórs, sem var birt með fjárhagsáætlun, hér.
Ketill Gauti Árnason, verkefnastjóri á framkvæmda- og þjónustusviði, fór yfir fyrirhugaðar breytingar á innkaupastefnu og innkaupareglum Norðurþings en byggðarráð hefur unnið að endurskoðun á reglunum síðustu vikur. Endurskoðaðar reglur koma til afgreiðslu sveitarstjórnar nú í byrjun árs og verða þá birtar á heimasíðu sveitarfélagsins.
Þá fóru Jónas H. Einarsson, framkvæmda- og þjónustufulltrúi, Benedikt Þór Jakobsson, rekstrarstjóri Orkuveitu Húsavíkur og Þórir Örn Gunnarsson, hafnastjóri, yfir fyrirhugaðar framkvæmdir næsta árs.
Ágætar umræður sköpuðust að loknum framsögum og er augljóst að það er eftirspurn eftir kynningarfundi að lokinni fjárhagsáætlanagerð, því er stefnt á að halda slíkan fund árlega hér eftir.