Lestur, lestur og aftur lestur
Góð lestrarfærni er í raun grunnurinn að öllu námi og reynir meira og meira á lestrarfærni eftir því sem líður á grunnskólann. Því er mikilvægt að tryggja að sem flestir nái góðri færni í lestri og að viðhorf til lesturs verði jákvætt.
Í skólum á svæðinu er ýmislegt gert til að bera kennsl á slaka lestrarfærni barna. Hér verða þau rakin í stuttu máli.
Á síðasta ári í leikskóla er lagt fyrir svokallað HLJÓM-2 skimunarpróf en þar eru börnin látin leysa ýmis verkefni sem gefið geta forspá um lestrargetu þegar fram í sækir. Prófið er lagt fyrir tvisvar ef barnið hefur komið illa út í fyrstu prófun. Þá er unnið markvisst með þá þætti sem þjálfa þarf barnið í og síðan prófað aftur með von um að barnið hafi bætt sig.
Á fyrstu tveimur árum í grunnskóla eru lögð fyrir próf sem heita LÆSI. Á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur fram að þessi próf séu „fyrst og fremst hugsuð sem tæki fyrir kennarann til þess að þeir geti metið stöðu nemenda sinna og þannig lagað kennslu að þörfum nemenda eða vísað þeim til frekari greiningar ef þurfa þykir.“
LOGOS skimunarpróf er lagt fyrir í 5. bekk en komi nemendur illa út úr þeirri skimun er sambærilegt einstaklingspróf lagt fyrir. Það próf greinir sértæka lestrarörðugleika (dyslexíu) hjá börnum.
GRP-14 lestrarskimun er síðan lögð fyrir í 8. bekk grunnskóla. Þetta próf greinir lestrar- og ritunarörðugleika hjá nemendum og er þeim sem koma illa út úr prófinu vísað í nánari greiningu hafi þeir ekki þegar fengið hana.
Ekki má svo gleyma því að lesskilningur er prófaður með samræmdum prófum í íslensku sem lögð eru fyrir í 4. og 7. bekk.
Eins og sjá má á þessari upptalningu er ýmislegt gert til að bera kennsl á þá sem eiga við lestrarörðugleika að stríða. Þó eru til þeir sem eru hæglæsir, eða hafa slakan lesskilning án þess þó að greinast með dyslexíu. Það eru ekki síst þessi börn sem þarf að huga að.
En hvað getum við gert til að stuðla að góðri lestrarfærni barnanna okkar? Það er mikilvægt að börn venjist því að lesa strax frá unga aldri. Við byrjum mörg að lesa fyrir börnin okkar á meðan þau eru ungabörn. Bækur með stórum og björtum myndum þar sem börn fá jafnvel að þreifa á mismunandi efnum, læra um dýrin, liti o.s.frv. eru oft fyrstu bækurnar sem börnin kynnast. Strax þá leggjum við grunninn að lestri barnanna seinna meir. Þau venjast því að skoða með okkur bækur og tala um þær. Við spyrjum, þau svara eða öfugt. Margir foreldrar lesa bækur fyrir börnin sín áður en þau fara að sofa. Þetta er róleg og notaleg stund sem foreldrar og börn geta átt saman. Sum börn læra stafi í leikskóla, önnur eru seinni til og sýna þeim lítinn áhuga. Sum eru jafnvel farin að stauta áður en þau koma í skóla. Þegar þangað er komið eru börn mjög misjafnlega stödd og kennarar vanir því að taka tillit til þess. Það fá ekki allir sömu bækurnar heim og þykir það orðið sjálfsagt í dag, bæði hjá kennurum og börnum. En gríðarleg áhersla er lögð á það í skólum að heimalestri sé sinnt. Allur lestur skiptir máli. Sé erfitt að fá barnið til að lesa sjálft heima er betra að lesa pínulítið en að lesa ekki neitt. Eins er betra að foreldri nýti þá tímann til að lesa fyrir barnið en að sleppa lestri alfarið. Þegar lengra líður á skólagöngu skiptir miklu máli að viðhalda þessum stundum hjá barninu. Flest börn hætta að þurfa að lesa heima á miðstigi grunnskóla. Hættan er sú að þetta verði til þess að lítið fari fyrir lestri almennt hjá sumum börnum. Þá er mikilvægt að höfða til áhugamáls barnsins. Lestur um fótbolta eða tónlist er betri en enginn lestur, jafnvel þó hann fari fram á netinu. Að lesa Andrés Önd er líka lestur, þó okkur þyki það ekki merkilegar bókmenntir. Mikilvægt er að við höldum áfram að tala um bækurnar við börnin. Spyrja þau út í söguþráð, biðja þau um að spá fyrir um hvað gerist næst í bókinni og skilgreina þau orð sem börnin ekki skilja. Þannig erum við að vinna með texta og auka lesskilning barnanna. Þegar áhugi barna er lítill fyrir lestri má benda á ágætis aðferð til að vekja áhugann. Barnið velur bók eftir áhugasviði og síðan er skipst á upplestri, í fyrstu les foreldrið/fullorðinn (leggur inn kveikju) og því næst barnið og svo koll af kolli. Gleymum ekki að eldri börnum sem eru orðin fluglæs finnst líka gott að láta lesa fyrir sig, þá er ekki verra að velja góða bók sem öll fjölskyldan hefur gaman af.
Hljóðbækur geta nýst öllum vel, ekki eingögnu þeim sem glíma við lestarörðugleika. Mikil aukning hefur orðið í útgáfu hljóðbóka undanfarin ár og því sífellt auðveldara að nálgast þetta efni. Tækninni fleygir fram og nú er hægt að fá ýmsar bækur á rafrænu formi sem lesa má í spjaldtölvum. Verði það til þess að börnin lesi frekar er um að gera að nýta sér þá tækni.
Nú eru að koma jól og sumir eiga kannski eftir að kaupa gjafir handa börnum, barnabörnum, ungum frænkum og frændum. Setjum bækur í pakkana og hvetjum börnin okkar þannig til að lesa. Að endingu vil ég minna á að við fullorðna fólkið erum fyrirmyndir í þessu sem öðru. Ef við lesum sjálf og börnin alast upp við það að bókalestur sé góð afþreying er líklegra að þau taki sér sjálf bók í hönd sér til ánægju og yndisauka.
Gleðileg bókajól!
Ingibjörg Sigurjónsdóttir, sálfræðingur.