Mærudagar - sænskir dagar
Nú á mánudaginn hefjast Sænskir dagar á Húsavík og stendur til fimmtudags. Hátíðin er sett með athöfn kl. 17.00 í Barðahúsinu og eru allir velkomnir. Garðar Cortes og Robert Sund munu flytja nokkur lög. Á dagskrá Sænskudaga eru m.a. tónleikar með Garðar Cortes og Robert Sund. Guðrún Gunnarsdóttir syngur ljóð og lög eftir Corenelis Wreeswijk í íslenskum búningi Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar.
Kaðlín Handverkshús mun vera með sýningu í Safnahúsi Þingeyinga með yfirskriftinni ,,Lifandi Handverk, skapandi hönnun". Þar mun áhersla vera lögð á tengsl handverks og hönnunar, fræðslu um handverk og hönnun og hvernig handverk og hönnun nýtist í atvinnuskyni.
Hádegisfyrirlestrar verða frá þriðjudag til fimmtudags. Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður mun fjalla um hönnun sína og tengsl hennar við handverk. Johan Tiedemann mun fjalla um formennsku Svía í ESB. Árni Sigurbjörnsson og Arnhildur Pálmadóttir fjalla um verkefnið Garðshólmur.
Bæjarbúar og gestir Sænskra daga eru hvattir til að nýta sér þau fjögur námskeið sem í boði eru. Eldsmiðja og námskeið í tálgun eru áhugaverð í ljósi gamals handverks. Siglinganámskeiðið er orðið að hefð og fá pláss eftir. Einnig verður námskeið í töfrabrögðum þar sem undirstöðuatriði í töfrum og því að koma fram eru kennd. Töframennirnir þeir, Einar Mikael og John Tómasson ætla að halda sýningu í samkomuhúsinu á sunnduaginn 19.júlí. kl. 17.00. Einn efnilegasti töframaður íslands Einar "Einstaki" mun taka þátt með þeim í þeirri sýningu. Frítt inn.