Margt um að vera á Raufarhöfn
Margt var um að vera á Raufarhöfn þann 13. maí sl. Þá var formlega opnuð heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Auk þess var til sýnis nýtt áhaldahús Norðurþings sem staðsett er á Raufarhöfn. Um kvöldið var svo opinn fundur um atvinnumál á svæðinu.
Þriðjudaginn 13. maí var heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga á Raufarhöfn tekin í notkun með formlegum hætti eftir gagngerar breytingar og endurbætur. Forstjóri stofnunarinnar Jón Helgi Björnsson flutti ávarp þar sem farið var yfir framkvæmdirnar og þeim þakkað sem að verkinu komu. Því næst tók Sigurður Halldórsson læknir til máls og fór yfir sögu stöðvarinnar og hvernig aðstaðan hafði þróast í árana rás. Kristján Þór Júlíusson fyrsti þingmaður Norðausturskjördæmis flutti ávarp fyrir hönd heilbrigðisráðherra, í máli þingmannsins kom meðal annars fram að ráðherra legði mikla áherslu á að hlú vel að grunnheilsugæslu. Þá flutti Þuríður Backmann kveðjur frá manni sínum Birni Kristleifssyni arkitekt, sem teiknaði endurbæturnar á húsinu. Að lokum flutti Valgerður Sverrisdóttir stutt ávarp þar sem hún meðal annars vakti athygli á því mikla starfi sem Sigurður Halldórsson hefur lagt af mörkum til þjónustu á svæðinu.
Því næst var gestum boðið að skoða húsið og þiggja veitingar. Komu margir íbúar til að skoða aðstöðuna og njóta þeirra veitinga sem boðið var uppá. Meðal gesta var Þórdís Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur ásamt manni sínum Árna Sörenssyni fyrrum verksmiðjustjóra Síldarverksmiðja Ríkisins á Raufarhöfn. Þórdís starfaði við heilsugæslustöðina á Raufarhöfn í rúmlega 20 ár og var óþreytandi við að liðsinna þeim sem á hjálp þurftu að halda. Leist Þórdísi sérstaklega vel á þær breytingar sem gerðar hafa verið á stöðinni. Flestir gestirnir gerðu sér einnig ferð í svokallað Skakkhorn sem er nýtt áhaldahús Norðurþings en það hýsir nú sjúkrabíl heilsugæslustöðvarinnar. Segja má að aðstaðan þar sé nú stórglæsileg og jafnist á við það sem best gerist. Verktaki við breytingar og nýbyggingu var Norðurvík trésmíðaverkstæði á Húsavík . Seinna um kvöldið var fundur um atvinnumál á Raufarhöfn í félagsheimilinu Hnitbjörgum. Sveitarstjórn Norðurþings boðaði til fundarins og var aðalefni hans kynning á skýrslu starfshóps um möguleg tækifæri til atvinnusköpunar á Raufarhafnar. Starfshópurinn var skipaður fulltrúa frá Sveitarfélaginu, Elísabetu Gunnarsdóttur, fulltrúa frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Sif Jóhannesdóttur, og fulltrúum heimamanna, Óskari Óskarssyni, Einari Sigurðssyni, Agnieszku Szczodrowsku, Birnu Björnsdóttur, Erlingi Thoroddsen og Jóhannesi Árnasyni. Elísabet Gunnarsdóttir kynnti skýrsluna fyrir hönd hópsins og var henni vel tekið. Þar kom helst fram að helstu styrkleikar Raufarhafnar fælust í einstakri náttúru Raufarhafnar, staðsetningu við heimsskautsbaug og sambýli við hafið. Helstu tækifærin lægju í ferðaþjónustu. Það var þó látið fylgja með að mikilvægt væri að hlúa að þeim störfum sem þegar eru á svæðinu og liggja að stórum hluta í sjávarútvegi. Hægt er að óska eftir eintaki af skýrslunni hjá Elísabetu (s. 4646125 eða elisabet@nordurthing.is) fyrir þá sem hafa áhuga.
Aðrir á mælendaskrá voru Jón Helgi Björnsson sveitarstjórnarfulltrúi, Guðbjartur Ellert Jónsson fjármálastjóri Norðurþings og staðgengill sveitarstjóra, og Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins. Fyrir utan mælendur, íbúa og fulltrúa sveitarstjórnar voru á fundinum tveir ágætir þingmenn kjördæmisins, Valgerður Sverrisdóttir og Þuríður Backmann, ásamt fulltrúa byggðarstofnunar og fulltrúum Atvinnuþróunarfélagsins. Mæting var nokkuð góð og einkenndist fundurinn af jákvæðni og bjartsýni.