Fara í efni

María Júlía kemur til Húsavíkurhafnar

Í morgun var lagt upp frá Akureyri með Maríu Júlíu BA 36, hið gamla björgunarskip Vestfirðinga, áleiðis til Húsavíkurhafnar og er skipið væntanlegt síðdegis í dag.

Skipið fer í slipp á Húsavík til viðgerða en það hefur legið undir skemmdum við Ísafjarðarhöfn árum saman þrátt fyrir að vera friðað samkvæmt lögum.

María Júlía er smíðuð úr eik í Frederikssund í Danmörku árið 1950 og er 108 brl, 30,14 m mesta lengd, 6,62 m br og 3,32 m á dýpt. Skipið þjónaði lengi sem björgunarskip Vestfirðinga frá 1950-1969 auk þess að hafa verið bæði notað sem hafrannsóknaskip og landhelgisgæsluskip. Talið er að áhöfn skipsins hafi bjargað um tvö þúsund manns.

Flutningur skipsins í slipp fékk úthlutun úr ríkissjóði upp á 15 milljónir og gáfu einkaaðilar vilyrði um annað eins. Fyrst var skipið dregið í slipp á Akureyri og hefur verið þar síðasta eitt og hálfa árið. Þar var m.a. gerð frumathugun, hreinsun og lagfæring og húsið fjarlægt.

Nú kemur skipið til Húsavíkur og er á leið í slipp Norðursiglingar sem fóstrar það á meðan frekari skrokkviðgerð fer fram. Skipið mun liggja við bryggju á Húsavík þar til framkvæmdum í Slippnum við endurnýjun á dráttarbraut, sleða og hliðarfærslum lýkur en sú vinna er langt komin.

Það eru Hollvinasamtök Maríu Júlíu sem hafa unnið að því að skipið verði gert upp og því fengið nýtt hlutverk. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki nokkur ár.