Markaðs- og menningardagur Kópaskeri
Laugardaginn 2. desember næstkomandi verður markaðs- og menningardagur í íþróttahúsinu á Kópaskeri. Húsið opnar kl. 13:00 og hálftíma síðar eða kl. 13:30 verður dagurinn settur og Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri ávarpar gesti. Þess ber að geta að húsið opnar kl. 11:00 fyrir þátttakendur.
Að vanda verður ýmislegt í boði. Fyrirtæki, félög og einstaklingar af svæðinu munu kynna starfsemi sína með ýmsu móti. Handverk, markaðir, kökubasar, bingó og myndasöfn eru meðal þess sem verður í boði. Tölvuþjónusta Víkings mun bjóða upp á skönnun/afritun af þeim myndum sem verða til sýnis eða öðrum myndum sem fólk kemur með sjálft. Jafnframt munu kórinn og tónlistarskólinn standa fyrir tónlistaratriðum og nokkrir safnarar hafa samþykkt að hafa söfn sín til sýnis. Hvatningarverðlaun verða veitt og "hugmyndabankinn" kynntur.
Ljósin á jólatrénu verða tendruð kl. 17:00 og þá er von á góðum gestum því tveir jólasveinar hafa boðað komu sína, nokkrum dögum á undan áætlun.