Marta Florczyk er listamaður Norðurþings 2022
Listamaður Norðurþings árið 2022 er Marta Florczyk listmálari. Marta er fædd og uppalin í landi þúsund vatna, Masúríu í Póllandi. Hún hefur allta tíð verið skapandi og átti það til sem lítil stelpa að stýra leik- og tónlistarsýningum fyrir fjölskylduna. Þá tók hún stundum upp á því að klippa og snyrta hunda en eins og sönnum listamanni sæmir var hún alltaf frekar villt.
Árið 2006 flutti hún til Húsavíkur þar sem hún hefur búið síðan ásamt fjölskyldu sinni. Mörtu hefur alltaf fundist hún þurfa að skapa list. Íslenska náttúran, vindurinn og myrkrið veita henni innblástur að verkunum. Þegar hún málar gleymir hún öllum áhyggjum og finnur leið til að anda og tjá sig frá sínum dýpstu rótum.
Marta er fjölbreytt og sjálfstæð listakona sem leitar enn að sínum sanna stíl. Hún hefur ekki lært málaralist eða tækni í skólum heldur er hún sjálfsmenntuð á því sviði. Hún lauk þó framhaldsnámi við háskóla í Póllandi á sviði menningarstjórnunar sem tengist listinni óbeint. Hún vinnur nú í Borginni frístund og stundar einnig meistaranám í þjóðaröryggi við háskólann í Lódz í Póllandi.
Marta hefur staðið fyrir tveimur listasýningum. Sú fyrri fór fram í Safnahúsinu á Húsavík í ágúst 2020 og bar heitið Incomer. Á þeirri sýningu sýndi listamaðurinn margra ára safn af verkum og naut mikils áhuga gesta sem skynjuðu sýninguna í gegnum prisma „utanaðkomandi sem horfir á heiminn í kringum sig án þess að skilja hann að fullu.“
Önnur sýning Mörtu nefnist Face to Face og var opnuð 29. janúar s.l. í Rösk á Akureyri. Sú sýning samanstóð af listaverkum sem sýndu aðallega andlit og fígúrur. Þar sótti Marta innblástur í þörfina fyrir að öðlast samþykki annarrar manneskju og að leita dýpra. Að horfa beint í andlit fólks er mikilvægt. Til að hafa hugrekki til að horfa framan í annað fólk, þá þarftu fyrst og fremst að elska sjálfan þig.
Annað verkefni sem listakonan vinnur nú að er sýning og ljósmynda-vinnustofa sem kallast Colors of Love. Sýningin verður opnuð í sumar og samanstendur af 10 málverkum sem öll eru í pastellitum sem passa vel við sumarstemninguna á Íslandi. Í tengslum við sýninguna mun Marta halda vinnustofur fyrir gesti á öllum aldri.
Við óskum Mörtu innilega til hamingju með nafnbótina og hlökkum til skapandi samstarfs við hana næsta árið.