Meistarafyrirlestur í rekstrarverkfræði í Stjórnsýsluhúsinu á Húsavík
Verkefnið heitir Áhættugreining á framtíðar fjárstreymi Norðurþings. Fyrirlesturinn verður fluttur í húsakynnum Norðurþings á Húsavík og er öllum heimill aðgangur.
Verkefnið er unnið í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing. Útbúið er arðsemislíkan sem auðvelda á ákvarðanatöku og mat á áhættu við fyrirhugaðar framkvæmdir vegna iðnaðarsvæðis á Bakka. Settar eru fram nokkrar sviðsmyndir sem gætu komið upp ef til uppbyggingar kemur á iðnaðarsvæðinu. Beitt er arðsemismati og áhættumati á sviðsmyndirnar. Líkanasmíð sem þessi er eftir því sem best er vitað nýmæli hjá íslenskum sveitarfélögum og ætti að geta komið öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum að notum við ákvarðanatöku.
Niðurstöður sviðsmyndagreiningar eru þær að mest áhætta er hjá Hafnarsjóði. Hægt er að fjármagna framkvæmdir Orkuveitu Húsavíkur með eigin fé og tekjuaukning Aðalsjóðs gæti fjármagnað framkvæmdir af hans hálfu á innan við ári. En Hafnarsjóður þarf fé annars staðar frá. Fjöldi fyrirtækjanna sem mögulega munu hefja starfsemi á Bakka skiptir öllu máli. Nauðsynlegar framkvæmdir í innviðum eru ámóta kostnaðarsamar fyrir sveitarfélagið óháð fjölda fyrirtækjanna. Líkur á jákvæðri afkomu ef aðeins verður af fyrri áfanga PCC eru takmarkaðar og ekki má gera ráð fyrir að Hafnarsjóður geti í því tilviki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Aðalsjóði og Ríkissjóði. Fjárhagslegt jafnvægi Hafnarsjóðs er hins vegar í augsýn ef fleiri fyrirtæki hefja starfsemi á Bakka.
Leiðbeinendur Hrafnhildar voru þeir Páll Jensson, prófessor í rekstrarverkfræði við HR, og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri Norðurþings. Prófdómari er Stefán B. Gunnlaugsson dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.