Fara í efni

Menningarstefna Norðurþings

Að frumkvæði fræðslu- og menningarnefndar er  nú unnið að mótun menningarstefnu Norðurþings. Fræðslufulltrúi leiðir verkefnið en leitað er víðtæks samráðs við íbúa sveitarfélagsins.

Fyrstu skrefin eru opnir samráðsfundir með íbúum á ýmsum stöðum í sveitarfélaginu. Fyrstu fundirnir voru haldnir á Raufarhöfn og Kópaskeri þriðjudaginn 25. febrúar. Mæting á fundina var góð og urðu virkar og frjóar umræður. Á fundunum fór Erla Sigurðardóttir fræðslu- og menningarfulltrúi yfir umfang menningarstarfs á vegum sveitarfélagsins og kynnti tildrög menningarstefnu. Sif Jóhannesdóttir kynnti starfsemi og þjónustu Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir menningarfulltrúi Eyþings ræddi um hvort menning skiptir máli varðandi búsetu og lífsgæði.

Síðari hluti fundanna var helgaður hugmyndavinnu vegna mótunar menningarstefnu með áherslu á hlutverk og aðkomu sveitarfélagsins í menningarmálum. Fundarmenn voru afar virkir og eiga þakkir skyldar fyrir sitt framlag. Innlegg íbúanna í mótun menningarstefnu er afar mikilvægt og brýnt að sem flestar ábendingar komist til skila. Áhugsamir um málefnið eru hvattir til að hafa samband við Erlu Sigurðardóttur, fræðslu – og menningarfulltrúa í síma eða með tölvupósti á netfangið erla@nordurthing.is.