Nemendur við Framhaldsskólann á Húsavík, eru höfundar Snilldarlausnarinnar 2010
„Þokkalegur pappakassi" varð hlutskarpastur í Snilldarlausnum Marel, hugmyndasamkeppni framhaldsskólanema. „Fjölnota strandtaska" var valin flottasta myndbandið og „Sandpappi" frumlegasta hugmyndin. Verðlaunaafhendingin fór fram í Bíó Paradís kl. 17 í dag.
Jón Gnarr borgarstjóri afhenti verðlaunin, 100.000 kr. fyrir Snilldarlausnina 2010 en einnig var verðlaunað í tveimur öðrum flokkum þ.e. fyrir flottasta myndbandið og frumlegustu hugmyndina en 50.000 kr. voru veittar í hvorum flokki.
Skólasysturnar Lilja Björk Hauksdóttir, Magnea Ósk Örvarsdóttir og Sigurveig Gunnarsdóttir, nemendur við Framhaldsskólann á Húsavík, eru höfundar Snilldarlausnarinnar 2010. Þær hafa útbúið hefðbundinn pappakassa þannig að í honum er hægt að koma fyrir garnhnyklum og þræða enda garnsins út um hliðar kassans.
Með því er hægt að koma í veg fyrir að garnið flækist í prjónaskapnum. Auk þessa útbjuggu
þær sérstök pappaspjöld sem nota má sem skilrúm ef fleiri en einn hnykill er notaður.