Fara í efni

Niðurstöður Eftirlitsstofnunar EFTA vegna samninga Landsvirkjunar og Landsnets við PCC

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að samningar Landsvirkjunar og Landsnets við PCC Bakki Silicon frá því í mars 2015 feli ekki í sér ríkisaðstoð.

PCC áformar að byggja kísilverksmiðju á Bakka við Húsavík. Hefur PCC skrifað undir samning við Landsvirkjun um kaup á raforku og við Landsnet um flutning á raforku.

 

ESA hefur lagt mat á umrædda samninga og kynnt sér arðsemisútreikninga sem Landsvirkjun og Landsnet lögðu til grundvallar á þeim tíma sem samningarnir tóku gildi.

 

“Samkvæmt EES samningnum er opinberum fyrirtækjum frjálst að sinna verkefnum á almennum markaði ef þau gera það á sömu forsendum og einkafyrirtæki, þannig að samkeppni sé ekki raskað. Þegar það  hefur verið staðfest með hlutlægum hætti er unnt að útiloka ríkisaðstoð. Þegar önnur sjónarmið ráða för og samningar opinberra fyrirtækja eru ekki í samræmi við arðsemiskröfur á samkeppnismarkaði felur það hins vegar í sér ríkisaðstoð,” sagði Oda Helen Sletnes, forseti ESA.

 

Þegar kannað er hvort samningar séu gerðir á markaðskjörum er nauðsynlegt að rýna í skilmála hvers samnings fyrir sig. Landsvirkjun lagði fram yfirgripsmikil gögn sem að mati ESA sýna fram á að samningurinn um kaup á raforku er arðsamur og skilmálar hans eru slíkir að einkarekið fyrirtæki myndi samþykkja hann við sambærilegar aðstæður.

 

Landsnet hefur einnig sýnt fram á að fyrirtækið gerir sambærilegar kröfur og einkarekið fyrirtæki væri líklegt til að gera við sambærilegar aðstæður. PCC mun greiða gjöld sem ákvörðuð eru á grundvelli raforkulaga. Nánar tiltekið hafa útreikningar á kerfisframlagi og niðurspennu verið byggðir á gildandi aðferðafræði sem beitt er í öllum tilvikum gagnvart stórnotendum. PCC er því ekki undanþegið gjöldum sem það á með réttu að bera.

 

Samningarnir sem um ræðir voru undirritaðir í mars á þessu ári í kjölfar þess að ESA ákvað að hefja formlega rannsókn á samningum um sama efni frá árinu 2014. Þar sem samningunum frá 2014 var rift áður en þeir tóku gildi verður ekki séð að það þjóni tilgangi að ljúka þeirri rannsókn.

 

Opinber útgáfa ákvörðunar ESA verður birt á vefsíðu stofnunarinnar, væntanlega innan eins mánaðar.

Fréttin er tekin af; http://www.eftasurv.int