Fara í efni

Norðurþing tekur þátt í RECET verkefni um orkuskipti í dreifðum byggðum

Byggðarráð Norðurþings samþykkti á fundi sínum 12. september sl. boð EIMS og SSNE um þátttöku í gerð aðgerðaráætlunar í orkuskiptum. Fyrsta vinnustofan fór fram í Skúlagarði sl. mánudag þar sem umhverfis- og skipulagsstarfsfólki sveitarfélaganna, kjörnum fulltrúum, sveitarstjórum og starfsfólki orku- og veitufyrirtækja var boðið að taka þátt í lokaðri vinnustofu RECET um orkuskipti. Þátttaka var góð af hálfu Norðurþings en einnig voru þátttakendur frá Langanesbyggð og Þingeyjarsveit á vinnustofunni.

RECET verkefnið fékk styrk úr Evrópusjóðnum LIFE og snýst um að efla getu sveitarfélaganna til að takast á við orkuskipti í dreifðum byggðum. Markmiðið er að hvert sveitarfélag hafi í höndunum raunhæfa aðgerðaáætlun til að hraða þeirri þróun. Upp úr þeirri vinnu verður mörkuð aðgerðamiðuð heildarstefna fyrir Norðurland eystra. Afraksturinn verður heildstæð svæðisbundin áætlun um orkuskipti á NA-landi.