Fara í efni

Nýjar sýningar í Safnahúsinu á Húsavík

Föstudaginn 20. maí klukkan 16:00 verða opnaðar tvær nýjar sérsýningar í Safnahúsinu á Húsavík. Sýningarnar eru gjörólíkar en eiga það þó sameiginlegt að vettvangur umfjöllunarefnisins eru Þingeyjarsýslur. Önnur sýningin er um æfingar geimfara og hin um fornleifar og fornleifarannsóknir.  

Föstudaginn 20. maí klukkan 16:00 verða opnaðar tvær nýjar sérsýningar í Safnahúsinu á Húsavík. Sýningarnar eru gjörólíkar en eiga það þó sameiginlegt að vettvangur umfjöllunarefnisins eru Þingeyjarsýslur. Önnur sýningin er um æfingar geimfara og hin um fornleifar og fornleifarannsóknir.

 

Fornleifar í Þingeyjarsýslum

Á síðustu árum hafa víðtækar og umfangsmiklar fornleifarannsóknir farið fram í Þingeyjarsýslum. Með rannsóknum þessum hefur eflst þekking á búsetu fyrr á öldum – ekki síst á söguöld og fengist skýrari mynd af því hvernig fólk lifði fyrir um 1000 árum.

Markmið sýningarinnar er að birta yfirlit yfir helstu fornleifarannsóknir í Þingeyjarsýslum, með sérstakri áherslu á síðustu 25 árin og efla áhuga fólks á fornminjum á svæðinu. Á sýningunni verða fornmunir sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í héraðinu. Bátskumlið á Litlu Núpum í Aðaldal sem fannst árið 2007 er afar merkur fornleifafundur og er á sýningunni fjallað sérstaklega um hann.

Að sýningunni standa Menningarmiðstöð Þingeyinga, Hið þingeyska fornleifafélag og Fornleifastofnun Íslands. Sýningarstjórar eru Sigrún Kristjánsdóttir, Guðrún Alda Gísladóttir, Ásgeir Böðvarsson og Sif Jóhannesdóttir. Sýningin stendur til septemberloka.

 

Geimfarar í Þingeyjarsýslum

Árið 1965 kom hópur starfsmanna Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA hingað til lands. Í hópnum voru geimfaraefni stofnunarinnar, þeirra á meðal Buzz Aldrin sem steig annar manna fæti á tunglið. Þeir fóru til æfinga og skoðuðu náttúru í Þingeyjarsýslum, sérstaklega við Mývatn og í Öskju. Tveim árum síðar árið 1967 kom annar hópur frá NASA og meðal geimfaraefna í þeim hóp var Neil Armstrong. Af þeim 12 mönnum sem hafa stigið fæti á tunglið komu 9 í Þingeyjarsýslur til að æfa sig og læra jarðfræði undir handleiðslu íslenskra jarðvísindamanna. Á sýningunni eru munir sem geimfaraefnin skildu eftir, ljósmyndir frá dvöl þeirra hér auk mynda og muna sem tengjast geimferðum.

Sýningarstjóri er Örlygur Hnefill Örlygsson. Sýningin stendur til júníloka.