Nýr bátur í höfn
Fyrirtækið Axarskaft ehf kom með sinn annan bát sem það hefur í rekstri hingað til Kópaskers í dag. Báturinn er af Kleópötugerð og er um 14 tonn. Áður hafði komið um 7 tonna bátur fyrir nokkrum mánuðum.
Báðir eru bátarnir á línuveiðum, sá stærri er með beitningarvél um borð en fyrir þann minni er beitt í landi. Allur afli af þessum bátum verður að minnsta kosti slægður á Kópaskeri.
Þessi uppbygging hér á Kópaskeri í útgerð kemur í framhaldi af því að Öxarnúpur ehf sem kom hér á fót fiskmarkaði og slægingu ásamt fleiru fyrir nokkrum árum hefur gengið þokkalega.
Nú er svo komið að tvær fölskyldur eru fluttar hingað og nokkrir einstaklingar. Von er um að jafnvel fleiri fjölskyldur komi. Allt er þetta af þeim litla sprota sem Öxarnúpur ehf var hér í upphafi.
Er þetta svo orðið til þess að hér fer að verða húsnæðisskortur.