Nýtt aðalskipulag Norðurþings
Fimmtudaginn 17. apríl hófst formlega vinna að nýju aðalskipulagi fyrir Norðurþing. Þá var undirritaður verksamningur við Ráðgjafafyrirtækið Alta um skipulagsráðgjöf og vinnslu skipulagstillögu. Í framhaldi af undirskrift verksamnings var haldinn fundur þar sem nefndarfólki Norðurþings og stjórnendum var kynnt verkáætlun skipulagsvinnunnar og svo farið yfir helstu viðfangsefni sem taka þarf á í skipulagsvinnunni.
Kallað var eftir sýn fundarfólks á sveitarfélagið nú og til framtíðar og farið yfir helstu styrkleika og veikleika samfélagsins. Þar sem stefnumörkun í aðalskipulagi tekur til allra málaflokka sem sveitarfélag fæst við er mikilvægt að sem flestir leggi hönd á plóg við gerð skipulagsins.
Fulltrúar Alta eru nú á ferð um sveitarfélagið til að skoða aðstæður.
Íbúafundur um aðalskipulagsgerðina - Skipulagsdagur í Norðurþingi - verður haldin í Skúlagarði laugardaginn 19. apríl kl. 10:30-15:00. Markmið þess fundar er að líta til sveitarfélagsins sem heildar og afla upplýsinga um einkenni þessi og sýn íbúa á áherslur í dreifbýli. Fundurinn er öllum opinn og eru landeigendur og aðrir fasteignaeigendur í dreifbýli sérstaklega hvattir til að mæta og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.