Nýtt byggðarmerki Norðurþings
Byggðarráð valdi í morgun nýtt byggðarmerki fyrir Norðurþing. Fjórir hönnuðir voru fengnir til að senda inn tillögur að byggðarmerki. Það er Hróbjartur Sigurðsson sem hannaði merkið sem varð fyrir valinu. Þess ber að geta að þetta eru aðeins fyrstu drög að merkinu og er líklegt að það taki breytingum.
Hróbjartur lýsir tillögu sinni að byggðamerki svo:
“Merkið er skýrskotun í söguna um Sleipni sem steig fæti niður í Ásbyrgi og skildi eftir sig hóffar í berginu. Merkið er symmetrískt (miðjuspeglað) sem gefur því klassískt og virðulegt útlit.
Hófformið sem situr ofarlega fyrir miðju, myndar kraftmikla byggingu með stuðlaformunum að neðan sem láta merkið sitja vel og veita því festu.
Rauður er litur hugrekkis og áræðis en getur einnig táknað þann jarðvarma sem er nokkuð einkennandi fyrir svæðið. ”
Byggðarmerki þurfa að fylgja skilyrðum reglugerðar um skráningu byggðarmerkja. Sjá reglugerð hér. Merkið telst því ekki fullgilt byggðarmerki sveitarfélagsins Norðurþings fyrr en einkaleyfastofan hefur staðfest að það uppfylli fyrrgreinda reglugerð.