Fara í efni

Orkuveita Húsavíkur hlýtur styrk frá Evrópusambandinu gegnum verkefnið LIFE ICEWATER

Orkuveita Húsavíkur er í samstarfi 22 stofnana og sveitarfélaga á Íslandi sem fengu samtals 3,5 milljarða styrk í gegnum Evrópuverkefnið LIFE ICEWATER.

Verkefnið er til næstu 6 ára og er ætlað að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.

Verkefni Orkuveitunnar snúa að því að greina tækifæri í verðmætasköpun við meðhöndlun fráveituvatns frá matvælaiðnaði á svæðinu.

Orkuveitan mun setja upp tilrauna hreinsibúnað fyrir formeðhöndlun fráveituvatns frá matvælaiðnaði í Norðurþingi. Verkefnið er unnið í samstarfi við EIM og Gefn, auk Kjarnafæði Norðlenska.

Fyrsti hluti verkefnisins felst í því að hreinsibúnaðurinn verði settur upp við sláturhús Kjarnafæðis Norðlenska á Húsavík sem getur tekið við fráveituvatni frá sláturhúsinu í sláturtíð. Fráveitan verður meðhöndluð þannig að hægt verði að nýta blóð og önnur næringarefni sem annars myndu skolast út í sjó. Einnig verður fita skilin frá og unnin áfram í lífdísilframleiðslu.

Þetta tilraunaverkefni mun síðar nýtast sem fyrirmynd fyrir önnur svæði þar sem úrgangur frá matvælaiðnaði er stór áskorun í fráveitumálum á Íslandi.

Ávinningur verkefnisins fyrir svæðið felst meðal annars í því að ónotaðar auðlindir, sem nú enda í sjó, geta nýst til orkuframleiðslu, en einnig bættri umhverfisvernd.

Heildarfjárhæð sem kemur til verkefnisins er 150 milljónir króna og skiptist á Orkuveitu Húsavíkur (25 milljónir), EIM (85 milljónir) og Gefn (35 milljónir). Styrkurinn krefst 40% mótframlags frá þátttakendum, þannig að alls mun vinna og tækjabúnaður að andvirði 242 milljóna króna berast inn á svæðið á árunum 2025–2030.