Fara í efni

Ráðið hefur verið í starf félagsmálastjóra hjá Norðurþingi

Ráðið hefur verið í starf félagsmálastjóra hjá Norðurþingi sem auglýst var í febrúar og var Hróðný Lund ráðin.

Hróðný lauk B.Sc. prófi í hjúkrun frá Háskólanum á Akureyri árið 2012. Hún hefur unnið á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Húsavík, áður Heilbrigðisstofnun Þingeyinga frá árinu 2001, fyrst við umönnun sem sjúkraliði, en frá 2011 sem hjúkrunarfræðingur á sjúkradeild og öldrunardeild. Frá árinu 2016 hefur hún sinnt stjórnunarstöðu sem yfirhjúkrunarfræðingur á Hvammi, dvalarheimili aldraðra á Húsavík og sinnt rekstri heimilisins sem slíkur. Samhliða hefur hún verið verkefnisstjóri hjúkrunarrýma HSN. Á Hvammi hefur hún haft forráð um 40 starfsmanna sem og yfirumsjá með þjónustu við 60 íbúa.

 

Hróðný hefur setið ýmis námskeið og fagráðstefnur tengt störfum sínum og fagi sem og stjórnendanámskeið tengd þjónandi leiðsögn og námskeiðum um áhugahvöt og áhugahvetjandi samtal. Hróðný hefur jafnframt verið virk í félagsstarfi innan félags stjórnenda í öldrunarþjónustu, verið vara sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarstjórn Norðurþings frá 2014-2018, setið í félagsmálanefnd sveitarfélagsins undanfarin fjögur ár sem og setið í stjórn Hvamms, dvalarheimilis aldraðra frá 2014-2016.

 

Hróðný mun hefja störf á næstunni.  
Við bjóðum Hróðnýju velkomna til starfa og hlökkum til að fá hana í hópinn.

 

 

Alls sóttu fimm einstaklingar um starf félagsmálastjóra hjá Norðurþingi, en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Arnar Kristinsson

Ágúst Sigurður Óskarsson

Hróðný Lund

Sunna Mjöll Bjarnadóttir