Ráðið í nýtt starf verkefnastjóra atvinnu- og samfélagsþróunar
Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Nönnu Steinu Höskuldsdóttur á Höfða í nýtt starf verkefnastjóra atvinnu- og samfélagsþróunar með starfsstöð á Raufarhöfn. Um er að ræða samstarfsverkefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Norðurþings. Starfið er sett á fót í framhaldi af formlegum verkefnislokum Raufarhafnar og framtíðarinnar og er m.a. ætlað að byggja ofan á þann árangur sem þar náðist og fylgja honum eftir ásamt því að vera tengiliður samfélagsins á Raufarhöfn við stjórnsýslu sveitarfélagsins og hverfisráðið á Raufarhöfn. Þá mun starfsmaðurinn sérstaklega sinna verkefnum atvinnuþróunarfélagsins á austurhluta starfssvæðis þess allt til Bakkafjarðar, í samstarfi við aðra starfsmenn félagsins. Nanna Steina er stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri ásamt því að vera lærður matartæknir. Hún rak veitingastaðinn Eyrina á Þórshöfn í tíu ár og rekur í dag búið á Höfða ásamt því að vera að byggja upp heimavinnslu. Hún var aðalmaður í sveitarstjórn Langanesbyggðar í sjö ár og sat þar í ýmsum nefndum og var meðal annars formaður atvinnumálanefndar. Nanna hefur síðastliðin ár verið virkur íbúi á Raufarhöfn og m.a. setið í Hrútadaganefnd, afmælisnefnd fyrir Hnitbjörg félagsheimili og verið í verkefnastjórn verkefnisins Raufahöfn og framtíðin. Gert er ráð fyrir að Nanna Steina hefji störf að einhverju leiti í maí en verði alkomin til starfa í júní.