Réttindagæsla fyrir fatlað fólk
Réttindagæslumaður fatlaðra verður með viðtalstíma á milli kl. 14 og 16 fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði á Húsavík svo lengi sem veður leyfir. Viðtölin fara fram í húsnæði verkalýðsfélagsins Framsýnar.
Best er að hafa samband fyrir fram og semja um viðtal hjá Guðrúnu Pálmadóttur, réttindagæslumanns á Norðurlandi, á netfangið gudrun.palmadottir@rett.vel.is eða í síma 858-1959. Guðrún hefur aðsetur á skrifstofu Vinnueftirlitsins, Skipagötu 14 (4. hæð) á Akureyri.
Réttindagæslumaður er þessa daga á Húsavík til áramóta 2011-2012:
- 1. september
- 7. október
- 3. nóvember
- 1. desember
Í maí 2011 tók til starfa nýr réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Norðurlandi. Starfið er á vegum Velferðarráðuneytisins og nýtur réttindagæslumaður lögfræðilegrar aðstoðar þaðan. Svæðið sem nýtur þjónustu réttindagæslumanns er frá Hrútafirði til vesturs og að Bakkafirði til austurs.
Á sama tíma og starfshlutfall réttingæslumanns var aukið í 75%, þá voru skyldur réttindagæslumanns einnig auknar frá því sem áður var skilgreint í lögum. Það starf sem réttindagæslumaður hefur með höndum samkvæmt reglugerðum í dag er:
- Fylgjast með högum fatlaðs fólks og aðstoða og styðja það við hvers konar réttindagæslu hvort sem það er vegna þjónustu, einkamála eða einkafjármuna.
- Fatlað fólk getur leitað til réttindagæslumanns með hvaðeina sem varðar réttindi þess.
- Réttindagæslumaður veitir, þeim sem leita til hans, stuðning og aðstoðar hann við að leita réttar síns.
- Réttindagæslumaður getur tekið upp mál að eigin frumkvæði.
- Hver sá sem telur að brotið sé á réttindum fatlaðs fólks getur tilkynnt það réttindagæslumanni.
- Réttindagæslumaður stendur fyrir fræðslu fyrir fatlað fólk og þá sem starfa með því.
Sjá nánar um hlutverk réttindagæslumanns fatlaðs fólks í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk; http://www.althingi.is/altext/139/s/1806.html
Guðrún Pálmadóttir er skipuð réttindagæslumaður á Norðurlandi til 1 árs. Hún hefur unnið sem þroskaþjálfi og ráðgjafi frá útskrift 1988 úr Þroskaþjálfaskólanum. Hún var uppeldislegur og meðferðalegur ráðgjafi í sínu starfi fyrir Félagsþjónustu Húnvetninga á árunum 1988- 2005. Árið 2004 lauk hún námi í EHÍ í verkefnastjórnun og vann frá 2005 - 2007 við að skipuleggja heimaþjónustu hjá Akureyrarbæ. Hún hefur verið að vinna við stuðning innan félagsmálakerfisins og fleiri verkefni eftir að hafa lokið BA í sálfræði vorið 2010.